Erlent

Sádí-Arabar hefja styrktarsöfnun fyrir sýrlenska flóttamenn

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Aðstæður í sýrlenskum flóttamannabúðum eru víðast hvar bágbornar.
Aðstæður í sýrlenskum flóttamannabúðum eru víðast hvar bágbornar. Vísir/EPA
Sádí-Arabía hefur hafið styrktarsöfnun fyrir Sýrlendinga sem eru á flótta vegna borgarastyrjaldarinnar í landinu. Reuters greinir frá.

Rúmlega 11 milljónir Sýrlendinga eru á flótta vegna stríðsins en yfir 300 þúsund manns hafa farist í átökunum sem geisað hafa í fimm ár. Sádí-Arabía hefur verið einn helsti stuðningsaðili uppreisnarhópa sem berjast gegn sýrlensku ríkisstjórninni.

Þúsundir sýrlenskra uppreisnarmanna og almennra borgara hafa yfirgefið austurhluta Aleppo á síðastliðnum vikum og dvelja margir þeirra í flóttamannabúðum við afar bágar aðstæður.

Samkvæmt ríkisfjölmiðlum í Sádí Arabíu hefur konungur landsins – Salman bin Abdulaziz fyrirskipað að stofnaður verði sérstakur styrktarsjóður fyrir sýrlendinga á flótta og hefur hann heitið því að ríkið muni leggja til allt að 27 milljónir bandaríkjadollara í sjóðinn.

Kom fram í fjölmiðlum landsins að upphæðinni á að verja í uppbyggingu flóttamannabúða auk matar, lyfja og teppa fyrir sýrlenska flóttamenn. Var tekið fram í umfjöllun sádí-arabískra fjölmiðla að konungurinn hefði sjálfur gefið tugi milljóna í sjóðinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×