Innlent

RÚV braut lög með sýningu GoldenEye

Aðalsteinn Kjartansson skrifar
RÚV mátti ekki sýna Bond-myndina fyrr en eftir klukkan tíu.
RÚV mátti ekki sýna Bond-myndina fyrr en eftir klukkan tíu. Vísir/GVA
Ríkisútvarpið braut lög þegar það sýndi James Bond-mynd klukkan fimm mínútur í níu að kvöldi 9. janúar síðastliðins. Lög heimila ekki sýningu myndarinnar fyrir klukkan 22.00. Fjölmiðlanefnd fjallaði um málið og komst að þessari niðurstöðu. RÚV gekkst við brotinu og harmaði að það hafi átt sér stað.



Myndin sem um ræðir heitir GoldenEye og skartar Pierce Brosnan í hlutverki njósnara hennar hátignar. Kvikmyndin var auðkennd með gulu merki sem þýðir að hún er ekki talin við hæfi barna yngri en tólf ára. Slíkar myndir má, samkvæmt lögum, ekki spila í sjónvarpi fyrr en eftir tíu.

Í svari Ríkisútvarpsins við erindi frá Fjölmiðlanefndinni var sagt að ástæðuna mætti rekja til þess að umrætt kvöld hafi verið bein útsending frá landsleik í handbolta karla sem hafi varað nokkru skemur en gert hafi verið ráð fyrir í dagskrársetningu. Þá hafi einnig verið tekin ákvörðun með skömmum fyrirvara að hætta við að senda út Útsvar á milli landsleiksins og myndarinnar. GoldenEye fór því í loftið um klukkutíma fyrr en upprunalega hafði verið gert ráð fyrir.

Í bréfinu kom einnig fram að dagskrárdeild sjónvarpsins harmi þessi mistök.

Þrátt fyrir að heimild sé í lögum til að leggja á stjórnvaldssekt vegna brota af þessum toga ákvað Fjölmiðlanefndin að gera það ekki þar sem um fyrsta brot RÚV hafi verið að ræða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×