Erlent

Rússar sniðganga ársfund ÖSE

Bjarki Ármannsson skrifar
Frá fundi neðri deildar rússneska þingsins.
Frá fundi neðri deildar rússneska þingsins. Vísir/AFP
Rússar munu ekki mæta á ársfund Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu (ÖSE eða OSCE á ensku) eftir að Finnar meinuðu sex fulltrúum rússnesku sendinefndarinnar um inngöngu í landið. Fundurinn hefst í Helsinki eftir fjóra daga.

Finnska utanríkisráðuneytið tilkynnti í gær að engin undantekning yrði gerð fyrir sexmenningana, sem eru á lista yfir þá rússnesku embættismenn sem mega ekki ferðast til aðildarríkja Evrópusambandsins í refsingarskyni fyrir hlut Rússa í átökunum í Úkraínu.

Sergei Naríshkin, þingforseti neðri deildar rússneska þingsins, segir að Rússar muni sniðganga fundinn í mótmælaskyni við brot Finna og ESB á „grundvallarhugsjónum lýðræðisins,“ að því er RT í Rússlandi greinir frá. Rússar ætli sér þó áfram að mæta á næstu samkomu ÖSE, sem haldin verður í Mongólíu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×