Erlent

Rússar fá aftur að ferðast til Tyrklands

sunna karen sigurþórsdóttir skrifar
Pútín Rússlandsforseti hefur aflétt banni við leiguflugi til Tyrklands.
Pútín Rússlandsforseti hefur aflétt banni við leiguflugi til Tyrklands. vísir/epa
Vladimír Pútín Rússlandsforseti hefur aflétt banni á skipulögðum gamanferðum frá Rússlandi til Tyrklands. Bannið var sett á eftir að Tyrkir skutu niður rússneska orrustuþotu á landamærum Sýrlands og Tyrklands í nóvember.

Pútín setti viðskiptaþvinganir á Tyrki í ársbyrjun og sagðist ekki ætla að aflétta þeim fyrr en hann fengi formlega afsökunarbeiðni frá tyrkneskum stjórnvöldum. Afsökunarbeiðnin barst bréfleiðis í vikunni frá Recep Tayyip Erdogan Tyrklandsforseta. Þjóðhöfðingjarnir tveir ræddust í kjölfarið við símleiðis þar sem Pútín boðaði viðræður um viðskiptasamninga við Tyrki.

Bannið hafði, að sögn tyrkneskra stjórnvalda, skaðleg áhrif á ferðaþjónustuna í landinu, en Tyrkland hefur lengi verið einn vinsælasti áfangastaður Rússa.

Mikil spenna hefur verið í samskiptum ríkjanna síðustu mánuði. Tyrkir hafa ítrekað sakað Rússlandsher um að rjúfa lofthelgi Tyrklands, en Rússlandsher hefur aðstoðað Sýrlandsstjórn í baráttunni við vígamenn Íslamska ríkisins og aðra uppreisnarhópa í Sýrlandi.

Rússar brugðust við með því að koma á viðskiptaþvingunum gegn Tyrkjum og stöðva allt leiguflug í gegnum ferðaskrifstofur frá Rússlandi til tyrkneskra ferðamannastaða.


Tengdar fréttir

Erdogan biður Rússa afsökunar

Tyrklandsher skaut niður rússneska herþotu á landamærum Sýrlands og Tyrklands í nóvember síðastliðinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×