Enski boltinn

Rooney með tvennu í sigri United | Sjáðu mörkin

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Juan Mata átti góðan leik fyrir United í dag.
Juan Mata átti góðan leik fyrir United í dag. vísir/getty
Manchester United vann sinn sjöunda sigur í síðustu átta leikjum þegar liðið lagði Newcastle að velli með þremur mörkum gegn einu á Old Trafford í dag. Þetta var 11. sigur United í röð á öðrum degi jóla.

Mörkin í leiknum má sjá hér að neðan.

Wayne Rooney skoraði fyrstu tvö mörkin í fyrri hálfleik. Það fyrra kom á 23. mínútu eftir undirbúning Juans Mata og Falcao sem var mjög frískur í framlínu United í dag.

Rooney bætti öðru marki við á 36. mínútu eftir fallega sendingu frá Mata.

United var mun sterkari aðilinn og Robin van Persie skoraði þriðja markið á 53. mínútu með skalla eftir frábæra sendingu Rooneys.

Eftir þriðja markið róaðist leikurinn og fátt markvert gerðist fyrr en á 86. mínútu þegar Phil Jones braut á Jack Colback innan vítateigs.

Mike Jones, dómari leiksins, dæmdi vítaspyrnu og úr henni skoraði Papiss Cisse, en þetta var 8. deildarmark Senegalans í vetur.

United er enn í 3. sæti úrvalsdeildarinnar, nú með 35 stig. Newcastle er hins vegar komið niður í 10. sætið en liðið hefur tapað þremur leikjum í röð.

Man Utd 1-0 Newcastle Man Utd 2-0 Newcastle Man Utd 3-0 Newcastle Man Utd 3-1 Newcastle



Fleiri fréttir

Sjá meira


×