Fótbolti

Ronaldo vill vera aðalmaðurinn og verður því að sætta sig við gagnrýnina

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Dani Alves, bakvörður Barcelona, segir að Cristiano Ronaldo megi búast við að fá mesta gagnrýni eftir 4-0 niðurlæginguna í El Clásico á laugardagskvöldið.

Börsungar pökkuðu erkifjendum sínum saman á þeirra eigin heimavelli með tveimur mörkum frá Luis Suárez, einu frá Neymar og öðru frá Andrés Iniesta. Með sigrinum náði Barcelona sex stiga forskoti á toppnum.

Alves hefur enga samúð með Real-liðinu og segir að gagnrýni sé hluti af starfinu, sérstaklega fyrir ofurstjörnur eins og Ronaldo.

„Hann verður áfram Cristiano. Algjörlega frábær leikmaður. Kannski er það vandamálið,“ sagði Alves við blaðamenn eftir leikinn.

„Hvernig á ég að orða þetta? Hann er svo mikill karakter og elskar að vera aðalmaðurinn. Ef þú vilt vera sá leikmaður þá verðurðu að taka gagnrýninni alveg eins og hrósi þegar liðið þitt vinnur.“

„Ef liðið vinnur ekki eða nær ekki góðum úrslitum verður það alltaf stjörnunni að kenna. En við hugsum bara um okkur en ekki Cristiano. Ef ég á að vera heiðarlegur er mér alveg sama hvað Cristiano gerir,“ sagði Dani Alves.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×