Fótbolti

Ronaldo: Ég er í góðu lagi

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Vísir/Getty
Cristiano Ronaldo segist vera heill heilsu á ný eftir að hafa verið frá vegna meiðsla síðustu vikurnar.

Ronaldo var í byrjunarliði Real Madrid sem vann 1-0 sigur á Bayern München í fyrri viðureign liðanna í undanúrslitum Meistaradeildar Evrópu í gær.

Fjölmiðlar á Spáni hafa fjallað mikið um meiðsli hans og fullyrt að ekki væru allir sammála innan félagsins um hversu alvarleg þau væru.

Carlo Ancelotti, stjóri Real Madrid, sagði á blaðamannafundi eftir leik að ákveðið hafi verið að Ronaldo myndi ekki spila allan leikinn þar sem hann væri bara „50 prósent heill“.

Ronaldo spilaði í 73 mínútur og kláraði á þeim tíma aðeins tíu sendingar. Hann átti þó lykilþátt í sigurmarki Karim Benzema í leiknum.

Hann sagði sjálfur í samtali við blaðamenn eftir leikinn að hann hefði ekki fundið fyrir neinum meiðslum.

„Menn voru smeykir fyrir leikinn sem er eðlilegt þar sem þetta var minn fyrsti leikur í þrjár vikur. Ég hafði sjálfur trú á því að ég gæti spilað þó svo að aðrir vildu það ekki.“

„En ég spilaði og sýndi að ég er í góðu lagi. Ekkert gerðist. Þeir voru hræddir en það er allt í lagi með mig. Ég fann ekki fyrir neinum óþægindum.“


Tengdar fréttir

Benzema sá um Bayern | Sjáðu markið

Real Madrid er í góðri stöðu í undanúrslitum Meistaradeildar Evrópu eftir 1-0 sigur á heimavelli á Evrópumeisturum Bayern München.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×