Innlent

Rólegur í yfirheyrslum hjá lögreglu - tilbúinn að mæta örlögum sínum

Árásarmaðurinn er þrjátíu og fjögurra ára gamall Reykvíkingur en hann átti í vanskilum og sá lögmannsstofan um að innheimta eitt af lánum hans. Maðurinn virkar rólegur og yfirvegaður í yfirheyrslum hjá lögreglu. Ekkert bendir til þess að hann hafi verið undir áhrifum fíkniefna eða lyfja.

Samkvæmt heimildum fréttastofu er árásarmaðurinn þrjátíu og fjögurra ára gamall og búsettur í Reykjavík. Maðurinn starfar hjá tæknifyrirtæki en yfirmaður hans sagði í samtali við fréttastofu í dag að hann hefði mætt til vinnu í morgun. Svo virðist sem að maðurinn hafi farið þaðan á lögmannsskrifstofuna. Hann hafði átt í vanskilum en lögmannsskrifstofan sá um að innheimta eitt af lánum hans.

Eftir því sem fréttastofa kemst næst er manninum mjög í nöp við lögmenn og vildi ekki að sér yrði skipaður verjandi. Í yfirheyrslum hjá lögreglu hefur hann verið mjög samvinnuþýður og virkar rólegur og yfirvegaður. Hann virðist tilbúinn til þess að mæta örlögum sínum en lögregla hefur ekki merkt nein merki þess að hann hafi verið undir áhrifum fíkniefna eða lyfja.

Útskýringar mannsins á verknaðinum eru á þá leið að hann hafi verið búinn að ákveða að fara niður á Lagastoð og meiða einhvern. Það mun því hafa verið tilviljun ein að framkvæmdarstjóri Lagastoðar hafi orðið fyrir árásinni.

Á Vísi fyrr í dag var sagt frá því að maðurinn væri með mótórhjól á lánum frá SP-fjármögnun. Það mun ekki vera rétt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×