Erlent

Ritstjórn New York Times vill lögleiða sölu og neyslu marijúana

Kjartan Atli Kjartansson skrifar
Leiðarinn var myndskreyttur, til dæmis með bandaríska fánanum þar sem marijúnaplöntur komu í stað stjarnanna.
Leiðarinn var myndskreyttur, til dæmis með bandaríska fánanum þar sem marijúnaplöntur komu í stað stjarnanna.
Ritstjórn dagblaðsins New York Times leggur til, í leiðara í dag, að sala og neysla á maríjúana verði gerð lögleg um gjörvöll Bandaríkin.

Í leiðaranum er banni á maríjúana líkt við banni á áfengi á Bannárunum svokölluðu frá 1920 til 1933, þegar sala á áfengi var gerð ólögleg í Bandaríkjunum. Ritstjórnin bendir á að þrír fjórðu hlutar ríkja innan Bandaríkjanna hafi lögleitt maríjúana að einhverju leyti. En samt sem áður telur hún mikilvægt að lögleiðingin verði gerð á alríkisgrundvelli, til þess að tryggja að nýir forsetar geti ekki tekið geðþóttaákvarðanir í þessu máli.

Ritstjórnin bendir á að sú ákvörðun að hafa marijúana ólöglegt sé samfélaginu dýr. Árið 2012 voru 658 þúsund handtökur tengdar við marijúana en 256 þúsund tengdar heróíni, kókaíni og svipuðum efnum. Ritstjórnin telur að ungir þeldökkir menn séu helstu fórnarlömb laganna um marijúana. Telur ritstjórnin að þau hafi slæm áhrif á þá, búi til farveg sem ali af sér atvinnuglæpamenn.

Í leiðaranum er einnig fjallað um marijúanafíkn. Vísindamenn hafa fjallað mikið um efnið og hversu ávanabindandi það sé. Ritstjórnin telur að sýnt hafi verið fram á að efnið sé ekki meira ávanabindandi en áfengi og tóbak. Hún fjallar einnig um kenningar sem segi að marijúananeysla leiði fólk út í harðari efni. Ritstjórn New York Times telur þær kenningar algjörlega fráleitar.

Ritstjórnin boðar að mikinn fréttaflutning um málið á næstu dögum. Hún býður lesendum blaðsins að senda inn greinar og munu blaðamenn New York Times fjalla ítarlega um spurningar sem tengjast lögleiðingunni. Ritstjórnin telur þó ólíklegt að Bandaríkjaþing muni lögleiða marijúana. En hún telur mikilvægt að fjalla um málið og segir kominn tíma á að aflétta banninu aftur og vísar þar til bannsins á sölu áfengis á þriðja og fjórða áratug síðustu aldar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×