Sport

Risasamningur Eurosport um Ólympíuleikana

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
David Zaslav, forseti og stjórnarformaður Discovery, og Thomas Bach, forseti Alþjóðaólympíunefndarinnar, eftir undirritunina í gær.
David Zaslav, forseti og stjórnarformaður Discovery, og Thomas Bach, forseti Alþjóðaólympíunefndarinnar, eftir undirritunina í gær. Vísir/Getty
Alþjóðaólympíunefndin og Discovery Communications, móðurfélag Eurosport, skrifuðu í gær undir samning sem tryggir Eurosport sýningarréttinn á bæði vetrar- og sumarólympíuleikum frá 2018 til 2024.

Eurosport greiðir 1,3 milljarð evra fyrir réttinn, jafnvirði 191 milljarða íslenskra króna.

Samningurinn nær til 50 Evrópulanda og í þeim hópi er Ísland. Rétturinn nær yfir alla helstu miðla - sjónvarpsrétt í bæði opinni og læstri dagskrá sem og á internetinu og í spjaldtölvum, símum og sambærilegum tækjum.

Forráðamenn Eurosport hafa þó látið hafa eftir sér að þeir hafa ekki í hyggju að breyta því hvernig Ólympíuleikarnir eru sýnir í hverju Evrópulandi fyrir sig heldur aðeins auka framboðið. Til stendur að áframselja hluta réttarins til sjónvarpsstöðva í hverju landi fyrir sig.

Eurosport er áskriftarstöð í flestum löndum en í samningnum er ákvæði að sýndar verða 200 klukkustundir í opinni dagksrá frá sumarleikum og 100 klukkustundir frá vetrarólympíuleikum.

Discovery keypti fyrst 20 prósenta eignarhluta í Eurosport árið 2012 en varð svo meirihlutaeigandi félagsins í janúar í fyrra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×