Innlent

Ríkisstjórnin sparar milljarð með minni atvinnuleysisbótum

Heimir Már Pétursson skrifar
Oddný Harðardóttir og Vigdís Hauksdóttir.
Oddný Harðardóttir og Vigdís Hauksdóttir. Vísir/Daníel/GVA
Fyrrverandi fjármálaráðherra segir að nýlega samþykkt fjárlagafrumvarp endurspegli mikinn áherslumun núverandi og fyrrverandi ríkisstjórnar. Til að mynda spari núverandi ríkisstjórn milljarð króna með því að stytta bótatíma atvinnulausra um sex mánuði sem fyrri ríkisstjórn hefði aldrei gert.

Vigdís Hauksdóttir, formaður fjárlaganefndar, og Oddný G. Harðardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar og fyrrverandi fjármálaráðherra, ræddu meðal annars muninn á stefnu núverandi og fyrrverandi ríkisstjórnar í ríkisfjármálum í þættinum Sprengisandi á Bylgjunni í morgun. Oddný sagði muninn á þessum tveimur ríkisstjórnum mikinn.

„Ég er til dæmis að tala um það að ráðast á bótatíma langtíma atvinnulausra og spara sér þar milljarð í útgjöldum. Ríkisstjórnin gerir það með því að stytta bótatímann um sex mánuði fyrir langtímaatvinnulausa. Sumir fá engar bætur vegna þess að aðstoð sveitarfélagana er þannig að þar er tekið tillit til til dæmis tekna maka,“ sagði Oddný.

Að auki hafi ríkisstjórnin lagt af auðlegðarskattinn sem skapaði ríkissjóði 10 milljarða í tekjur. Vigdís segir fráleitt að fullyrða að ríkisstjórnin sé stjórn hinnar efnameiri og láti sér fátt um finnast varðandi hag þeirra minna efnuðu.

„Forseti ASÍ hefur verið að ráðast á þessa ríkisstjórn fyrir akkúrat þennan orðaflaum eins og Oddný bar hér fram. Að við værum að gera eitthvað meira fyrir þá sem að hafa það betra. Ég skil ekki hvernig fólk getur farið fram úr á morgnana þegar það er búið að gagnrýna það að tæplega 100 þúsund Íslendingar fengu skuldaniðurfellingu,“ sagði Vigdís.

Þá gagnrýndi Oddný stjórnarflokkanna fyrir niðurskurð í framhaldsskólakerfinu með því að meina 25 ára og eldri að sækja framhaldsskólana.

„Þá er ég nú búin að finna reglugerð sem Katrín Jakobsdóttir undirritaði sem menntamálaráðherra frá árinu 2012 þar sem nákvæmlega þetta ákvæði er inni, að þeir sem eru 25 ára og eldri eru síðastir inn í framhaldsskólana,“ sagði Vigdís.

Oddný sagði sveigjanleika íslenska framhaldsskólakerfisins hins vegar helsta kost skólans. Reglugerðina sem Vigdís minntist á væri um þá röð sem fólk væri tekið inn í framhaldsskólana en ekki til að meina eldri nemendum skólagöngu eins og núverandi ríkisstjórn hefði ákveðið að gera.

„Þeir horfa á það sem þeir setja í menntun sem útgjöld en ekki sem fjárfestingu. Samt sýna fræðin það að hvert ár í framhaldsskóla eykur hagvöxtin sem hver einstaklingur skapar um mörg prósent,“ sagði Oddný G. Harðardóttir í Sprengisandi í morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×