Viðskipti innlent

Ríkissjóður greiðir upp lán frá Póllandi

Atli Ísleifsson skrifar
Fjármála- og efnahagsráðherra, fjármálaráðherra Póllands og seðlabankastjóri undirrituðu viðauka við lánssamninginn við Pólland, sem gerir ríkissjóði kleift að forgreiða lán Póllands.
Fjármála- og efnahagsráðherra, fjármálaráðherra Póllands og seðlabankastjóri undirrituðu viðauka við lánssamninginn við Pólland, sem gerir ríkissjóði kleift að forgreiða lán Póllands. Mynd/Fjármála- og efnahagsmálaráðuneytið
Ríkissjóður Íslands endurgreiðir fyrirfram í vikunni lán frá Póllandi sem tekið var árið 2009 í tengslum við efnahagsáætlun stjórnvalda eftir fall fjármálakerfisins, sem studd var af Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.

Í frétt frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu segir að um sé að ræða endurgreiðslu að fjárhæð 204 milljónir slota, jafnvirði um 7,3 milljarða króna. „Lánsloforð Pólverja var upp á 630 milljónir slota og þar af nýtti Ísland um þriðjung. Lánið var á gjalddaga á árunum 2015-2022.“

Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra, Már Guðmundsson seðlabankastjóri og Mateusz Szczurek fjármálaráðherra Póllands undirrituðu í dag viðauka við lánssamning Póllands við ríkissjóð, sem gerir ríkissjóði kleift að forgreiða lán Póllands.

Szczurek er staddur á Íslandi í vináttuheimsókn í boði fjármála- og efnahagsráðherra.

Bjarni sagði að með því að bjóða Íslandi lán á erfiðum tímum og leggja þannig þjóðinni lið við endurreisn landsins hafi Pólverjar sýnt Íslendingum mikið vinarbragð. „Slík vinátta er dýrmæt og íslenska þjóðin þakkar fyrir hana.“

Endurgreiðsla markar tímamót

Í frétt ráðuneytisins segir að endurgreiðsla á láni Pólverja til Íslands marki tímamót. „Með henni lýkur uppgjöri á þeirri aðstoð sem Ísland fékk frá vinaþjóðum í formi lána í kjölfar hrunsins. Árið 2014 forgreiddu ríkissjóður og Seðlabanki Íslands það sem út af stóð af lánum Norðurlanda.

Seðlabanki Íslands hefur þegar forgreitt meirihluta af láni AGS. Eftir standa gjalddagar í lok þessa árs og á fyrrihluta næsta árs.

Greiður aðgangur Íslands að erlendum fjármagnsmörkuðum, eins og velheppnuð skuldabréfaútgáfa í evrum í fyrra vitnar um, ásamt þeim árangri sem náðst hefur í efnahags- og ríkisfjármálum á síðustu árum og betri afkomu ríkissjóðs, hefur gert Íslandi kleift að forgreiða þau lán sem tekin vor í kjölfar hruns fjármálakerfisins.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×