Innlent

Reynir hættur hjá Strætó

Aðalsteinn Kjartansson skrifar
Reynir tók sjálfur ákvörðun um að kaupa jeppann.
Reynir tók sjálfur ákvörðun um að kaupa jeppann. Vísir
Reynir Jónsson er hættur sem framkvæmdastjóri Strætó. Þetta staðfestir Bryndís Haraldsdóttir, formaður stjórnar Strætó. Starfsmönnum fyrirtækisins var tilkynnt um þetta í morgun.

Í tilkynningu frá Strætó kemur fram að samkomulag hafi náðst á milli Reynis og stjórnarinnar um starfslokin. Hann hefur þegar látið af störfum.

Framkvæmdastjórinn hefur verið í sviðsljósinu eftir að DV greindi frá því að hann hefði rúmlega tíu milljóna króna Mercedes Benz jeppa til umráða.

Vísir greindi í kjölfarið frá því að stjórnin hefði ekki verið upplýst um kaupin á jeppanum eftir að eldri bíll sem hann hafði afnot af eyðilagðist. Fréttablaðið sagði svo frá því að gamli bíllinn skemmdist þegar Reynir ók honum út í á þegar hann var í laxveiði.

Stjórn Strætó hefur þegar ákveðið að selja jeppann. Strætó keypti jeppann, sem er af árgerðinni 2014, af bílaleigunni Hertz þann 30. júlí síðastliðinn. Reynir tók sjálfur ákvörðun um að kaupa bílinn en jeppinn var ekki skráður á fyrirtækið fyrr en 2. október.

„Það er sameiginlegt mat beggja aðila að ekki sé til staðar það traust sem nauðsynlegt er á milli stjórnar og framkvæmdastjóra,“ segir í tilkynningu Strætó til fjölmiðla. „Nauðsynlegt er að tryggja traust á fyrirtækinu og að stjórnun þess verði hafin yfir allan vafa.“

Staða framkvæmdastjóra verður auglýst.


Tengdar fréttir

Eyðilagði jeppann í laxveiði

Framkvæmdastjóri Strætó ók jeppa sem hann hafði til umráða út í Norðurá í sumar og eyðilagði í honum vélina. Hann hefur skilað tíu milljóna króna bílnum sem hann fékk í hans stað.

Sveinbjörg Birna vill að Reynir verði rekinn

Segir Reyni Jónsson, framkvæmdastjóra Strætó BS, hafa farið út fyrir valdsvið sitt og því sé honum ekki lengur stætt á að gegna stöðu sinni áfram.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×