Erlent

Reyndi að keyra inn í hóp af fólki í Belgíu

Samúel Karl Ólason skrifar
Samkvæmt lögreglu var bíllinn á frönskum númerum og eru vopn sögð hafa fundist í bílnum.
Samkvæmt lögreglu var bíllinn á frönskum númerum og eru vopn sögð hafa fundist í bílnum. Vísir/AFP
Lögreglan í Antwerpen í Belgíu hefur handtekið mann sem reyndi að keyra bíl sínum inn í hóp af fólki. Maðurinn ók inn á fjölfarna verslunargötu í belgísku borginni á miklum hraða. Maðurinn, sem er franskur og rekur uppruna sinn til Norður-Afríku er sagður hafa verið klæddur í föt í felulitum. Engan sakaði þó.

Samkvæmt lögreglu var bíllinn á frönskum númerum og miðlar í Belgíu segja vopn hafa fundist í bílnum. Nánar tiltekið fannst riffill og hnífar. Antwerpen er næstfjölmennasta borgin í Belgíu með á fimmta hundrað þúsund íbúa.

Árásarmaðurinn í London í gær notaði bíl til þess að keyra á fólk á Westminster-brúnni. Fjórir eru látnir, að árásarmanninum meðtöldum, og 40 særðust. Íslamska ríkið hefur lýst yfir ábyrgð á árásinni.

Notkun bíla til hryðjuverkaárása hefur færst í aukarnar, en hryðjuverkasamtök eins og al Qaeda og Íslamska ríkið hafa um árabil kallað eftir slíkum árásum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×