Erlent

Reyndi að brjóta bílrúðu en rotaðist - Myndband

Samúel Karl Ólason skrifar
Eftir að hafa reynt að brjótast inn í bílinn í hálftíma kastaði þjófurinn stórum múrstein í rúðuna.
Eftir að hafa reynt að brjótast inn í bílinn í hálftíma kastaði þjófurinn stórum múrstein í rúðuna.
Myndband náðist af bílaþjófi í Írlandi þar sem hann gerði sig líklegan til að brjótast inn í bíl fyrir utan krá. Hann hafði reynt að brjótast inn í bílinn í hálftíma, með því að kasta steinum í rúðu bílsins. Þegar það gekk ekki ákvað hann að ná í eitthvað stærra.

Á myndbandinu má sjá hvernig þjófurinn hleypur að bílnum með stóran múrstein og kastar honum í rúðu bílsins.

Hinsvegar fór múrsteinninn ekki í gegnum rúðuna, heldur skoppaði hann af henni. Steinninn skall í andliti þjófsins og rotaði hann.

Á vef Independent er haft eftir eiganda kráarinnar og bílsins að hann hafi séð manninn liggjandi á götunni og haldið að keyrt hefði verið á hann. Gerry Brady bauðst til þess að hringja á lögregluna og sjúkrabíl en þjófurinn bað hann um að gera það ekki.

Þegar Brady sá skemmdirnar á bílnum sínum áttaði hann sig á því hvað hafði gerst. Þegar hann reyndi að hringja í lögregluna segir hann að þjófurinn hafi hótað að brenna kránna og hótaði honum ofbeldi. Kráareigandinn hljóp þó í burtu og náði að setja sig í samband við lögregluna.

Brady segir að lögregluþjónum hafi þótt myndbandið af þjófinum einstaklega fyndið, en maðurinn var handtekinn skömmu seinna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×