Lífið

Reyna að sporna við ölvunarakstri með því að hóta spilun á Nickelback

Anton Egilsson skrifar
Að þurfa að hlusta á Nickelback er slæm refsing að sumra mati.
Að þurfa að hlusta á Nickelback er slæm refsing að sumra mati. Vísir/GETTY
Lögregla í borginni Kensington í Kanada reynir nú að sporna við ölvunarakstri á yfiráðasvæði hennar með afar óvenjulegum hætti. Allir sem gripnir verða við ölvunarakstur verða auk þess að vera handteknir og sektaðir látnir hlusta á kanadísku hljómsveitina Nickelback. BBC vakti athygli á málinu.

Í færslu sem lögreglan birti á Facebook er biðlað til fólks um að hugsa sig tvisvar um áður en það sest ölvað undir stýri. Með færslunni birta þeir mynd af óopnaðri Nickelback plötu sem þeir segjast vonast til að þurfa ekki að opna.

„Þegar við náum þér, munum við ofan á háa sekt, ákæru og árslanga ökuleyfissviptingu færa þér þá gjöf aukalega að spila fyrir þig Nickelback í bílnum á leiðinni í fangelsið,“ segir í Facebook færslu lögreglunnar.

Telur lögreglan þetta vera hina „fullkomnu gjöf“ fyrir þá sem ákveða að keyra undir áhrifum áfengis.

„Ef þið eruð nógu vitlaus til að setjast ölvuð undir stýri þá er smá af Nickelback hin fullkomna gjöf fyrir þig.“ 

Misjöfn viðbrögð við útspili lögreglunnar

Mikil viðbrögð hafa verið við færslunni og ljóst er að mörgum þykja tónar Nickelback sérlega slæm refsing. Aðrir gagnrýna þó uppátæki lögreglunnar og segja þá gera lítið úr því alvarlegu málefni sem ölvunarakstur er.

Einn aðili telur þó að betri árangur næðist ef lögreglan myndi hóta spilun á Justin Bieber.

„Notið frekar Justin Bieber. Enginn mun þurfa að hugsa sig tvisvar um ef þið notið Bieber.“ 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×