Innlent

Réttlætismál að leiðrétta kjör ASÍ-félaga

Atli Ísleifsson skrifar
Forseti Alþýðusambandsins sem var endurkjörinn á þingi þess í dag segir réttlætismál að almennt launafólk fái leiðréttingu sinna kjara í samræmi við það sem aðrir hópar hafi samið um. Verkalýðshreyfingin muni ekki fylgja stjórnvöldum á leið til aukinnar misskiptingar haldi stjórnvöld áfram á þeirri braut.

Gylfi Arnbjörnsson fékk góða kosningu til áframhaldandi setu í stóli forseta Alþýðusambandsins á lokadegi þriggja daga þings sambandsins í dag. Hann hlaut 74,5 prósent atkvæða en mótframbjóðandinn Ragnar Þór Ingólfsson 25 prósent.

Forseti Alþýðusambandsins hefur sagt að sú tilraun sem gerð var með kjarasamningum í fyrra hafi mistekist. Og því spurning hvort von sé á meiri hörku í samskiptum á vinnumarkaði þegar samningar losna með næsta vori?

„Nú skulum við bíða með að leggja mat á það hvort til átakanna komi. En það er alveg klárt að krafa okkar er að okkar félagsmenn njóti sannmælis, njóti sambærilegra breytinga og aðrir hafa fengið. Og það er alveg klárt og það kemur fram á þessum fundi og ég hef fundið það á fundum mínum með stjórnum aðildarfélaga, að það er meiri vilji og skilningur á því meðal okkar félagsmanna að ef að til þarf verðum við að setja afl okkar að baki því að ná þessu fram. Vegna þess að þetta er réttlætismál,“ segir Gylfi.

Menn hafi því svolítið verið að brýna hnífana á þessu þingi fyrir komandi samninga enda hafi misskiptingin í þjóðfélaginu verið að aukast.

„Ég held að það sé nokkuð ljóst og það hefur komið fram í okkar ályktunum varðandi það upplegg sem er í fjárlagafrumvarpinu, að þeirri aðför sem er að kjörum okkar fólks og réttindum þar verður að linna. En að sama skapi þurfum við að setjast niður og móta þá einhverja sameiginlega sýn þessara aðila. Stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins og tengja saman, ekki bara efnahagslegan stöðugleika og forsendur hans, heldur líka félagslegan stöðugleika,“ segir Gylfi.

Þetta sé gerlegt en það kalli á vilja stjórnvalda til að hlusta á vilja félaga Alþýðusambandsins en innan þess eru félög um eitt hundrað þúsund karla og kvenna.

Er þetta kjarkleysi eða skilningsleysi sem einkennir stjórnvöld?

„Ég held að þetta séu bara mismunandi áherslur. Ég held að þetta sé ekki spurning um kjark. Þetta er spurning um að hafa skilning á því hvað þurfi til og vilja til að fara leið sem felur þá í sér meiri jöfnuð. Felur í sér að fólk fái að koma að mótun sinna kjara og hagsmuna. Ef viljinn væri þarna væri þetta alveg hægt. En ef stjórnvöld eru staðföst í því að að keyra áfram þessa leið sem er leið misskiptingar, er klárt að verkalýðshreyfingin er ekki til í það,“ segir Gylfi Arnbjörnsson ný endurkjörinn forseti ASÍ.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×