Innlent

Rétt rúmlega þriðjungur styður ríkisstjórnina

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Aðeins rétt rúmlega þriðjungur landsmanna styður rikisstjórnina samkvæmt nýrri könnun fréttastofu 365.

Spurt var: Styður þú ríkisstjórnina?

Af þeim sem tóku afstöðu á landinu öllu svöruðu 34 prósent spurningunni játandi en 66 prósent neitandi.

Ríkisstjórnin nýtur meiri stuðnings meðal karla en kvenna en 39 prósent karla styðja stjórnina en aðeins 29 prósent kvenna.

Stuðningur við ríkisstjórnina er talsvert minni í Reykjavík en á landsbyggðinni. Aðeins 27 prósent styðja ríkisstjórnina í Reykjavík en 73 prósent eru á móti. Þetta speglast vel í þeirri staðreynd að ríkisstjórnarflokkarnir tveir eru með talsvert lakara fylgi í Reykjavík en þeir hafa á landsbyggðinni.

Í Norðvesturkjördæmi nýtur ríkisstjórnin 45 prósenta stuðnings en 55 prósent eru á móti henni.

Í Norðausturkjördæmi er ríkisstjórnin með 39 prósenta stuðning en 61 prósent eru á móti. Í Suðurkjördæmi svöruðu 49 prósent prósent spurningunni játandi en 51 prósent neitandi.

Í Suðvesturkjördæmi er ríkisstjórnin aðeins með 33 prósent stuðning en 67 prósent þeirra sem tóku afstöðu eru á móti henni.

Ríkisstjórnin er með mun minni stuðning hjá ungum kjósendum. Aðeins 29 prósent kjósenda á aldrinum 18 til 49 ára styðja ríkisstjórnina en 71 prósent eru á móti henni. 41 prósent kjósenda yfir fimmtugu styðja ríkisstjórnina en 59 prósent eru á móti.

Könnunin var gerð dagana 2. og 3. maí. Hringt í var 1161 kjósanda í slembiúrtaki og svarhlutfall var 69%. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×