Erlent

Reisa eftirlíkingu af þýska þinghúsinu fyrir rússnesk börn í herþjálfun

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Þýska þinghúsið, Reichstag.
Þýska þinghúsið, Reichstag. Vísir/Getty
Varnarmálaráðuneyti Rússlands ætlar sér að framleiða eftirlíkingu af þýska þinghúsinu, sem oftast gengur undir nafninu „Reichstag,“ fyrir sérstakan hernaðarskemmtigarð. Sergei Shoigu, varnarmálaráðherra Rússlands, tilkynnti um þessar áætlanir í dag. Guardian greinir frá.

Í húsinu mun rússneskum börnum bjóðast að endurupplifa framrás rússneska hermanna inn í Berlínarborg í seinni heimsstyrjöldinni, árið 1945, þegar rússneskir hermenn hertóku Berlín og tóku yfir þinghúsið. Ein af sögufrægustu ljósmyndum stríðsins er af rússneskum hermönnum reisa fána Sovétríkjanna á loft yfir þinghúsinu. 

Sérstakar sveitir innan rússneska hersins voru settar á fót árið 2015, þar sem börnum allt niður í 10 ára aldur er gert kleyft að hljóta grunnþjálfun ásamt „þjóðrækinni grunnkennslu.“ Á sama ári opnaði Vladimír Pútín umræddan skemmtigarð þar sem eftirlíkingin verður reist, en um er að ræða sérstakan „þjóðernisgarð,“ fyrir rússnesk börn sem hlotið hafa herþjálfun.

Þjóðerniskennd í Rússlandi hefur farið vaxandi á undanförnum árum og reis hve hæst árið 2014, þegar Rússar innlimuðu Krímskagann, frá Úkraínumönnum. Varnarmálaráðherrann tók ekki fram hvenær eftirlíkingin af Reichstag byggingunni mun opna. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×