Sport

Refsað fyrir gervilæti á leikvanginum

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Þessi stuðningsmaður Atlanta lagði sitt af mörkum á gamla mátann.
Þessi stuðningsmaður Atlanta lagði sitt af mörkum á gamla mátann. Vísir/Getty
NFL-liðið Atlanta Falcons hefur verið refsað fyrir að framleiða gervistemningu á heimaleikjum liðsins undanfarin tvö ár.

Upp komst um málið í nóvember í fyrra og var liðinu þá gert að hætta uppátækinu. Lætin voru framkölluð til að gestaliðin heyrðu síður skilaboð sem öllu jöfnu berast leikmanna á milli, sem og frá þjálfurunum á hliðarlínunni.

Falcons þarf að greiða 350 þúsund dali í sekt, um 48 milljónir króna, en það sem öllu meira skiptir þá var valréttur liðsins í fimmtu umferð nýliðavalsins árið 2016 tekinn af félaginu.

Arthur Blank, eigandi Falcons, baðst afsökunar á þessu og sagði athæfið í engu samræmi við hvernig hann vill að félagið sitt sé rekið.

Maðurinn sem bar ábyrgð á þessu heitir Roddy White og var yfirmaður í viðburðarstjórnun hjá félaginu. Hann er nú hættur störfum í NFL-deildinni. Þess ber þó að geta að leikmaður sem ber sama nafn er enn á mála hjá Falcons, enda tengist hann málinu ekki neitt.

NFL



Fleiri fréttir

Sjá meira


×