Enski boltinn

Réðu svo óreyndan stjóra að ársmiðahafar fá endurgreitt

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Darren Kelly með Oldham-treyjuna.
Darren Kelly með Oldham-treyjuna. mynd/heimasíða Oldham
Stuðningsmenn enska C-deildarliðsins Oldham Athletic eru margir hverjir vægast sagt ósáttir við ráðningu nýja knattspyrnustjórans.

Oldham tryggði sér áframhaldandi veru í C-deildinni á nýliðinni leiktíð og verður í deildinni 19. árið í röð.

Stuðningsmenn félagsins höfðu vonast eftir að fá Iain Dowie sem knattspyrnustjóra liðsins eða verða vitni að frumraun Manchester United-goðsagnarinnar Pauls Scholes.

Þess í stað réð stjórn félagsins hinn 35 ára gamla Darren Kelly til starfa, en hann hefur aldrei stýrt meistaraflokksliði. Hann hefur undanfarin ár þjálfað unglinga hjá York og síðar Sunderland.

Óánægjan með ráðninguna er svo mikil að félagið þurfti að bregðast við. Það hefur ákveðið að endurgreiða þeim ársmiðahöfum sem vilja peninginn sinn aftur auk allra þeirra sem hafa keypt sér miða á einhverja leiki næsta vetur en treysta ekki nýliðanum.

„Ráðning Darren Kelly hefur vafalítið komið mögum á óvart, en hann er ungur og ástríðufullur stjóri sem hefur metnað og vilja til að ná langt,“ segir Simon Corney, stjórnarformaður Oldham, á vef félagsins.

Sjálfur er Kelly fullur sjálfstraust og hlakkar til að takast á við verkefnið.

„Ég skil þetta. Ég er nýi maðurinn hjá þessu félagi. Fyrir mér er enginn betri en ég til að ná úrslitum með þetta lið. Vonandi sér fólk með tíð og tíma fyrir hvað ég stend,“ segir Darren Kelly.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×