Fótbolti

Real Madrid er fjórum sigrum frá 42 ára gömlu meti Ajax

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Cristiano Ronaldo og félagar vilja bæta met Ajax-liðsins frá 1972.
Cristiano Ronaldo og félagar vilja bæta met Ajax-liðsins frá 1972. vísir/getty
Spænska knattspyrnuliðið Real Madrid er á rosalegri siglingu þessa dagana, en liðið er á toppnum í spænsku 1. deildinni, komið í 16 liða úrslit Meistaradeildarinnar og er nýbakaður heimsmeistari félagsliða.

Madrídarliðið er búið að vinna 22 leiki í röð í öllum keppnum, en sá 22. tryggði liðinu heimsmeistaratitilinn í Marokkó síðastliðinn föstudag.

Því hefur verið haldið fram að metið yfir flesta sigurleiki í röð eigi brasilíska liðið Curitiba sem vann 24 leiki í röð árið 2011. Þar er miðað við heimsmetabók Guinnes.

En brasilíska liðið á ekki metið, samkvæmt frétt spænska íþróttablaðsins Marca. Metið á hollenska stórliðið Ajax frá tímabilinu 1971-1972, en það vann 26 leiki í röð í öllum keppnum.

Með þessu frábæra Ajax-liði spilaði sjálfur Johan Cruyff og einnig hollensku landsliðsmennirnir Johan Neeskens og Johnny Rep.

Ajax vann 19 leiki í röð í hollensku úrvalsdeildinni, þrjá í bikarnum og fjóra í Evrópukeppni meistaraliða, en Ajax-liðið varð Evrópumeistari.

Real Madrid hefur aftur leik eftir jólafrí 4. janúar á útivelli gegn Valencia, en haldi það áfram sigurgöngunni jafna lærisveinar Ancelotti metið í bikarleik gegn nágrönnunum í meistaraliði Atlético 14. janúar.

Metið getur liðið svo bætt í útileik gegn Getafe, en þrír af næstu fimm leikjum Real Madrid fara fram í Madríd eða úthverfi borgarinnar.

Næstu fimm leikir Real Madrid:

04. jan Valencia - Real Madrid (deild)

07. jan Atlético - Real Madrid (bikar)

10. jan Real Madrid - Espanyol (deild)

14. jan Real Madrid - Atlético (bikar)

18. jan Getafe - Real Madrid (deild)




Fleiri fréttir

Sjá meira


×