Viðskipti innlent

Raungengi krónunnar hefur lækkað stöðugt

Raungengi hefur lækkað stöðugt frá því í desember og var tæpum 6% lægra í júlí en þegar það fór hæst í nóvember sl. Veiking krónunnar í upphafi árs er ein helsta ástæða lækkunar raungengisins. Raungengi er því enn mjög lágt í sögulegu samhengi eða 23% lægra en langtímameðaltal.

Þetta kemur fram  í nýjum Peningamálum Seðlabankans sem komu út í morgun.  Þar segir að ekki sé ástæða til bjartsýni um að gengið styrkist á næstunni. Þannig er áætlað er að útflutningur vöru og þjónustu aukist um 1,9% á þessu ári frá fyrra ári en í síðustu spá var gert ráð fyrir 2,5% aukningu.

Ástæða minni aukningar í ár er einkum minni vöxtur útfluttrar þjónustu, sem dróst saman á fyrsta ársfjórðungi. Spá um útflutning vöru og þjónustu á næsta ári er einnig heldur lægri. Án útflutnings skipa og flugvéla eru horfur fyrir næsta ár aftur á móti svipaðar og í aprílspánni. Árið 2013 er spáð um 3,5% vexti útflutnings vöru og þjónustu sem er heldur meiri vöxtur en búist var við í apríl.

Afgangur á vöru- og þjónustujöfnuði á fyrsta fjórðungi ársins var töluvert minni en á sama tíma fyrir ári. Afgangur var einnig á vöruviðskiptum á öðrum ársfjórðungi en engu að síður er hann minni en á sama tíma fyrir ári. Í spánni er gert ráð fyrir að afgangur af vöru- og þjónustuviðskiptum nemi 8,6% af landsframleiðslu á þessu ári, sem er um 2 prósentum minni afgangur en spáð var í apríl sem skýrist að stærstum hluta af horfum um lakari viðskiptakjör, að því er segir í Peningamálum.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×