Erlent

Rauðu símaklefarnir í London verða grænir

Atli Ísleifsson skrifar
Nýju símaklefarnir eru með sólarpanil á þakinu.
Nýju símaklefarnir eru með sólarpanil á þakinu. Vísir/AFP
Eitt af helstu einkennum höfuðborgar Bretlands mun hægt og bítandi hverfa af götum borgarinnar. Þeir munu í það minnsta breyta um lit.

Fyrsti símaklefinn sem knúinn er sólarorku var vígður fyrir utan neðanjarðarlestarstöðina Tottenham Court Road í gær. Í klefanum er þó ekki að finna gamaldags síma heldur fjórar innstungur þar sem stressaðir stórborgarbúar geta hlaðið farsíma sína og spjaldtölvur.

„Á tímum þegar vart nokkur Lundúnabúi er fullbúinn án eigin raftækja við hönd er kominn tími á að símaklefarnir sem eru einkennandi fyrir borgina séu uppfærðir,“ sagði borgarstjórinn Boris Johnson viðí tilefni af opnuninni í gær.

Nýju símaklefarnir eru með sólarpanil á þakinu og hleðst rafmagnið sem myndast í rafhlöður svo einnig sé mögulegt að notast við innstungurnar eftir að sólin sest.

Gömlu símaklefunum af gerðinni K6 var fyrst komið fyrir á götum breskra borga árið 1936. Framleiðslu þeirra var hætt árið 1968 og voru þeir þá um 70 þúsund víðs vegar um landið.

Um 11 þúsund eru enn í notkun en eru flestir þeirra í mikilli niðurníðslu. „Fólk notar þá helst sem klósett þegar þegar eru ölvaðir,“ segir Harold Craston, einn af forsvarsmönnum nýju símaklefanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×