Erlent

Rannsaka sjálfsvíg stúdenta við háskólann í York

Hulda Hólmkelsdóttir skrifar
Háskólinn í York.
Háskólinn í York. Vísir/Getty
Borgaryfirvöld í York á Englandi hafa ákveðið að rannsaka sjálfsvíg fjögurra stúdenta sem allir námu við háskólann í borginni.  Saher Ahmad, 20 ára, Daniel Pinfold, 23 ára, Christopher Walsh, 21 árs og Azusa Nose, 23 ára tóku öll sitt eigið líf á meðan þau stunduðu nám við Háskólann í York. Beðið er eftir niðurstöðum rannsóknar um fimmta tilfellið.

Fauzia Zaheer, móðir Saher Ahmad, segir að dóttir sín hafi átt framtíðina fyrir sér, en hún hafði áður reynt að taka sitt eigið líf og hafði verið í sálfræðimeðferð vegna þunglyndis í nokkur ár áður en hún hóf nám við skólann. Zaheer segir að dóttir sín hafi eingöngu fengið einn ráðgjafartíma eftir fyrri tilraun sína og að fjölskylda hennar hafi ekki verið látin vita af atvikinu. Þetta kemur fram á vef The Independent.

Eftirspurn nemenda skólans eftir sálfræðiráðgjöf hefur aukist um fimmtíu prósent á síðustu fimm árum. Í skýrslu frá maí síðastliðnum kom fram að helmingur allra tilfella sem kallað var til aðstoðar sjúkrabíls frá háskólanum voru vegna sjálfsskaða eða sjálfsvígstilrauna.

Yfirvöld háskólans hyggjast leggja um 500 þúsund pund í geðheilbrigðisþjónustu á næstu þremur árum. Upphæðin nemur um 74 milljónum íslenskra króna. Þá segjast yfirvöld hafa farið yfir alla verkferla háskólans hvað varðar geðheilbrigðisþjónustu í ljósi aukins álags á nemendum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×