Innlent

Ragnheiður Ríkharðsdóttir hverfur úr hópi þingmanna Sjálfstæðisflokks

Nanna Elísa Jakobsdóttir skrifar
Ragnheiður hefur setið á Alþingi fyrir Sjálfstæðisflokk síðan 2007.
Ragnheiður hefur setið á Alþingi fyrir Sjálfstæðisflokk síðan 2007. Vísir
Ragnheiður Ríkharðsdóttir, þingflokksformaður Sjálfstæðiflokksins, hyggst ekki gefa kost á sér í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins fyrir næstu Alþingiskosningar. Þetta tilkynnir hún á Facebook-síðu sinni í stuttri færslu.

Ragnheiður þakkar fyrir stuðning sem henni hefur verið sýndur og hvatningu sem hún hefur fengið.

„Ég hef verið svo lánsöm að kynnast góðu og skemmtilegu fólki í þessu starfi og fyrir það er ég óendanlega þakklát,“ skrifar Ragnheiður.

Ragnheiður lætur þó ósagt hvort hún láti til sín taka í stjórnmálum á öðrum vettvangi eða fyrir annan flokk. Hún er ein Evrópusinna í Sjálfstæðisflokknum og gæti ef til vill sómað sér vel á framboðslista nýja stjórnmálaaflsins Viðreisnar en það er frjálslyndur og Evrópusinnaður flokkur.

Ragnheiður hefur verið alþingismaður fyrir Suðvesturkjördæmi síðan 2007 og sem áður sagði hefur hún verið í Sjálfstæðisflokknum. Hún tók við formennsku þingflokksins árið 2013. Ragnheiður er frá Akranesi en gekk í Menntaskólann á Akureyri. Hún er menntuð í uppeldis- og kennslufræði og íslensku auk þess sem hún fór í framhaldsnám í menntunar- og uppeldisfræðum með áherslu á stjórnun. Hún hefur starfað sem kennari og bæjarfulltrúi Mosfellsbæjar.

Ragnheiður hefur verið áberandi frá því hún hóf þátttöku í stjórnmálum. Nýlega gagnrýndi hún harðlega búvörusamninga sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Þá stakk hún upp á því á Alþingi að einungis yrðu konur í framboði til Alþingis í næstu kosningum og að þingið yrði sérstakt kvennaþing í tvö ár frá 2017 til 2019 í tilefni af 100 ára kosningaafmæli kvenna.


Tengdar fréttir

Stór mál bíða afgreiðslu

Þingflokksformaður Framsóknar segir kosningar ekki verða nema málalisti ríkisstjórnarinnar klárist á sumarþingi. Umdeildir búvörusamningar bíða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×