Innlent

Ragnheiður Elín: Auðvitað er ég ráðherraefni

Ragnheiður Elín Árnadóttir vill leiða Sjálfstæðisflokkinn til sigurs í Suðurkjördæmi. Hún hvetur konur til þess að taka þátt í prófkjörum flokksins.fréttablaðið/vilhelm
Ragnheiður Elín Árnadóttir vill leiða Sjálfstæðisflokkinn til sigurs í Suðurkjördæmi. Hún hvetur konur til þess að taka þátt í prófkjörum flokksins.fréttablaðið/vilhelm
Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, tilkynnti Ragnheiði Elínu Árnadóttur í síðustu viku að hann myndi leggja til að Illugi Gunnarsson tæki við af henni sem formaður þingflokksins. Þetta kom henni á óvart, þar sem hún hafði gert ráð fyrir að gegna því embætti út kjörtímabilið, en hún tók við þegar Illugi tók sér hlé frá þingstörfum á meðan rannsókn á Sjóði 9 fór fram.

„Það var ekkert rætt um það þegar Illugi fór að þetta væri tímabundið, alls ekki. Ég var kjörin til þessa embættis af þingflokki Sjálfstæðisflokksins.“

Ragnheiður segir að með breytingunni hafi staða kvenna í flokknum síst batnað, en vill ekki horfa á málið út frá kynjasjónarmiðum.

„Ég hef, í minni pólitík, ekki orðið vör við það að mér hafi verið hampað eða hafnað vegna þess að ég er kona. Ég er á móti kynjakvótum og slíkri aðferðafræði, en vil sjá fleiri konur í stjórnmálum. Þannig held ég að við getum lagað ástandið.

Við erum að fara inn í kosningavetur og það eru spennandi tímar fram undan hjá öllum flokkum. Ég vonast svo sannarlega til þess að það verði prófkjör hjá okkur í öllum kjördæmum og ég vil sérstaklega hvetja konur til að gefa kost á sér til þess að tryggja að við höfum val. Þannig getum við fjölgað konum.“

Stefnir á ráðherrastólRagnheiður Elín segir að fátt sé svo með öllu illt að ekki boði nokkuð gott. Nú hafi hún tök á því að einbeita sér að starfinu í Suðurkjördæmi.

„Gallinn við þingflokksformannsstarfið er að þú ert með utanumhaldið og ábyrgðina á öllu og öllum. Ég var þannig þingflokksformaður að ég kom fyrst og fór síðust. Nú er sú ábyrgð farin á annarra hendur og ég hef miklu meiri tíma til að sinna kjósendum mínum og kjördæminu.“

En lítur hún á sig sem ráðherraefni?

„Auðvitað geri ég það. Ég ætla að tryggja það, fái ég til þess umboð, að ekki verði hægt að ganga fram hjá Suðurkjördæmi eftir kosningar, þegar og ef við verðum í þeirri aðstöðu að skipa til verka.“

Ragnheiður er bjartsýn á árangur í kosningunum og telur að stjórnarflokkarnir muni eiga erfitt uppdráttar í kjördæminu.

„Ef við skoðum bara atvinnumálin – hverjir eru undirstöðuatvinnuvegirnir í okkar kjördæmi og hver hefur stefna ríkisstjórnarinnar verið? Þar er í fyrsta lagi sjávarútvegurinn, sem sætt hefur stöðugum árásum frá því að þessi ríkisstjórn tók við, býr við óvissu og fær ekki vinnufrið.

Orkunýting er gríðarlega mikilvægt hagsmunamál ekki bara fyrir Suðurkjördæmi heldur landsmenn alla. Staðan er þannig að það þarf nánast bara að stinga í samband við Suðurlandið til að hefja atvinnuuppbyggingu. Ekkert hefur bólað á því hjá stjórnarflokkunum og innbyrðis ágreiningur, til dæmis varðandi virkjanir í neðrihluta Þjórsár, hefur tafið uppbyggingu.

Ég nefni landbúnaðinn sem eina undirstöðuna enn, og stefna stjórnarflokkanna gagnvart honum endurspeglast í umsókninni að Evrópusambandinu.

Og nú síðast er það ferðaþjónustan, sem er fjórða stoðin í atvinnuuppbygginu í okkar kjördæmi. Í stað þess að ríkisstjórnin styðji við bakið á ferðaþjónustunni, stingur hún hana hreinlega beint í bakið með áformum sínum um hækkun skatta á greinina.“

Eitrað andrúmsloft á þingiAlþingi hefst á þriðjudag, en þingstörf hafa einkennst af miklum átökum á þessu kjörtímabili. Ragnheiður Elín segir að andrúmsloftið á Alþingi hafi gjörbreyst við síðustu kosningar. Hún vill ekki kenna ákveðnum einstaklingum þar um, en stemningin í samfélaginu og á Alþingi hafi breyst gríðarlega mikið.

„Það er mun meiri heift og lengra á milli manna í skoðunum um ákveðin mál. Andrúmsloftið hefur verið mjög eitrað allt þetta kjörtímabil.

Ríkistjórnin vill umbylta stjórnarskránni, svo dæmi sé tekið, en við viljum gera íhaldssamar breytingar í takt við þá venju sem verið hefur varðandi stjórnarskrárbreytingar. Það er ekki reynt að finna milliveginn, heldur ákveðið að keyra málið í gegn.

Vandinn hefur einnig verið sá að stjórnarflokkarnir eru lengi að ná saman innbyrðis og þegar mál koma í þingið, seint og um síðir, er hvorki svigrúm né tími til að vinna með málin.“

Vopn sem virkarSérnefnd er að störfum um endurskoðun á þingsköpum og Ragnheiður Elín segir alla sammála um að breyta þurfi ýmsu. Færa þurfi verklag og vinnubrögð á þinginu til betri vegar. Sátt sé um að breytingarnar taki ekki gildi fyrr en eftir kosningar, þá sé óvíst hvaða flokkar verða í stjórn og hverjir í andstöðu.

„Verkefnið sem við stöndum frammi fyrir er að tryggja stjórnarandstöðu á hverjum tíma vopn sem eru það beitt að þau komi í veg fyrir að ríkjandi meirihluti á hverjum tíma geti valtað yfir stjórnarandstöðuna, á sama tíma og lýðræðislega kjörinn meirihluti á að geta komið á sínum áherslumálum sem hann var kjörinn til að framkvæma.“

Hún segir að þegar litið sé til annarra þjóðþinga séu átökin til staðar, þó þau séu kannski ekki eins sýnileg í þingsalnum sjálfum. Þau eigi sér stað annars staðar, t.d. í nefndum þinganna.

„Málið er að þetta virkar. Tökum t.d. Icesave sem dæmi. Þar sameinaðist stjórnarandstaðan og tókst að afstýra stórslysi.

Þetta vopn virkar, en það hefur ekki sérlega skemmtilegt yfirbragð, ég skal vera fyrsta manneskjan til að viðurkenna það.“

Atvinnumálin ber hæstFyrir síðustu kosningar birtu frambjóðendur og stuðningsmenn Sjálfstæðisflokksins í Reykjanesbæ mynd af sér fyrir framan grindina að álveri í Helguvík til að leggja áherslu á mikilvægi þess. Ragnheiður segir sorglega staðreynd að það sé næstum því hægt að endurbirta myndina nú fjórum árum síðar. Þó gefa nýjar fréttir af viðræðum Norðuráls og HS Orku vonandi tilefni til bjartsýni. „Þetta verkefni er gríðarlega mikilvægt, sem dæmi má nefna að skatttekjur ríkisins eru áætlaðar um milljarður á mánuði, tólf milljarðar á ári, fyrir utan allt hitt.“

„Við viljum öll hafa atvinnu og geta séð fjölskyldu okkar farborða. Það er einfaldlega ekki í boði á Íslandi að horfa upp á kynslóðir atvinnulausra verða til. Við verðum að nýta þau tækifæri sem blasa við. Við erum með tóman, skuldugan ríkissjóð og þurfum að forgangsraða takmörkuðu skattfé í þau verkefni sem eru brýnust. Menntun, heilbrigðismál, löggæsla – förum í gegnum listann og forgangsröðum. Ríkisstjórnin hefur forgangsraðað í þágu einhvers gælumáladútls allt kjörtímabilið, eins og ESB-umsókn og stjórnlagaráðið. Það var og er nauðsynlegt að ganga beint í það sem þarf að gera og láta hitt bíða.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×