Viðskipti innlent

Rafbílar í sókn á meðan sala á metanbílum hrundi

Haraldur Guðmundsson skrifar
N1 á Bíldshöfða hefur selt metan í nokkur ár og Olís opnaði metan­afgreiðslu í Mjódd í september.
N1 á Bíldshöfða hefur selt metan í nokkur ár og Olís opnaði metan­afgreiðslu í Mjódd í september. Vísir/GVA.
Nýskráningum rafbíla fjölgaði um 258 prósent á síðasta ári miðað við árið 2011. Sala á nýjum metanbílum dróst aftur á móti saman um 64 prósent á sama tímabili og bifreiðum sem var breytt í metanbíla fækkaði úr 404 í 57. Þetta kemur fram í tölum frá Samgöngustofu.

Runólfur Ólafsson og Özur Lárusson.
Özur Lárusson, framkvæmdastjóri Bílgreinasambandsins, tengir aukna sölu á rafbílum við ákvörðun stjórnvalda um að fella niður virðisaukaskatt og vörugjöld á rafbílum. 

„Þá urðu bílarnir samkeppnishæfir í verði sem þeir eru annars ekki því þeir eru dýrari en aðrir bílar. Það skýrir þessa sprengingu í rafbílasölu sem við höfum séð á síðustu tveimur árum,“ segir Özur. 

Runólfur Ólafsson, framkvæmdastjóri Félags íslenskra bifreiðaeigenda (FÍB), tekur undir með Özuri um áhrifin af aðgerðum stjórnvalda. 

„En á sama hátt er undarlegt að í nýrri löggjöf um vistvænt eldsneyti í samgöngum á landi er ekki gert ráð fyrir því að fjölgun rafbíla geti verið þáttur í að auka hlutdeild endurnýjanlegra orkugjafa í samgöngum á landi. Við hjá FÍB teljum að þar hafi stjórnvöld fúskað við lagagerðina,“ segir Runólfur. 

Samdráttur í sölu metanbíla á sér margar skýringar að mati Özurar og Runólfs. Özur nefnir meðal annars að fáir bílaframleiðendur selja metanbíla og aðgengi að metandælum er takmarkað. 

„Til skamms tíma var einungis hægt að kaupa metan á einum útsölustað og nú er búið að bæta við einni eða tveimur stöðvum. Síðan voru stofnuð hér hin og þessi fyrirtæki sem voru að breyta bílum í metanbíla. Það var misvel gert og það hafði auðvitað sín áhrif. Í mörgum tilvikum var um algjört fúsk að ræða og hreinlega með ólíkindum að sumum þessara fyrirtækja hafi verið leyft að breyta bílunum,“ segir Özur. 

Runólfur nefnir einnig breytingar á vörugjöldum bifreiða frá árinu 2011. 

„Þeim var breytt þannig að þau miðast ekki lengur við stærð bílvéla heldur mengun í útblæstri. Því eru fleiri ökutæki undir nýja mengunarviðmiðinu og metanbílar hafa því fengið aukna samkeppni frá neyslugrönnum bensín- og dísil­bílum,“ segir Runólfur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×