Skoðun

Ræða Hreiðars Más í héraðsdómi

Hreiðar Már Sigurðsson skrifar
Háttvirtur dómur.

Samkvæmt ákæru Sérstaks saksóknara eru mér gefin að sök umboðssvik í störfum mínum hjá Kaupþingi.

Með öðrum orðum að ég hafi ætlað í störfum mínum sem forstjóri Kaupþings að að valda bankanum fjártjóni og auðga aðra aðila á kostnað bankans.

Það er með öllu rangt, ég gætti hagsmuna Kaupþings í hvívetna í störfum mínum fyrir bankann. Á síðustu rúmlega sjö árum eða frá því haustið 2008 í kjölfar alvarlegustu fjármálakreppu sem hefur riðið yfir heiminn í nær heila öld og banka- og efnahags hruns Íslands hef ég mátt sitja undir mjög mörgum og alvarlegum ásökunum. Bæði í fjölmiðlum og eins frá embætti sérstaks saksóknara.

Það er líkast til ómögulegt að raða í einhverri vitrænni röð hvaða ásakanir hafi sært mig mest en þó get ég ekki neitað því að ásakanir um að ég hafi ætlað að valda Kaupþingi tjóni í starfi mínu sem forstjóri bankans særa mig inn að beini.

Ástæður fyrir því eru fjölmargar enda var ég alla tíð mjög stoltur af því að hluthafar og stjórn bankans skyldu velja mig til að vera í forystu fyrir frábærum hópi fólks og ég tók ábyrgð mína sem forstjóri Kaupþings mjög alvarlega og helgaði líf mitt velgengni Kaupþings.

En kannski er samt helsta ástæðan sú að hið sanna er að ég tók aldrei ákvörðun í starfi mínu sem forstjóri Kaupþings sem ég taldi ekki vera í samræmi við hagsmuni bankans. Ég starfaði hjá Kaupþingi í fimmtán ár og tókst ásamt samstarfsmönnum mínum að koma því til leiðar að Kaupþing stækkaði ár frá ári og skilaði góðri afkomu. Við nutum trausts viðskiptavina, fjármögnunaraðila og hluthafa. Bæði hér á landi og á alþjóðlegum mörkuðum.

Eftir fall Lehman Brothers í Bandaríkjunum, fall Glitnis og Landsbankans á Íslandi og setningu neyðarlaga sem voru sett til að tryggja hagsmuni íslenskra ríkisins vegna ríkisábyrgða á alþjóðlegum innlánum keppinauta Kauþings en gegn hagsmunum alþjóðlegra fjármögnunaraðila Kaupþings féll bankinn.

Fjárfesting í CLN – ráðgjöf Deutsche Bank

Aðdragandinn að fjárfestingu í skuldabréfum útgefnum af Deutsche Bank sem voru tengd skuldatryggingarálagi Kaupþings var allnokkur.

Breytingar á markaði með skuldatryggingar, svokallaður CDS markaður, höfðu valdið okkur stjórnendum Kaupþings áhyggjum seinnihluta árs 2007 og á árinu 2008. Töldum við að markaðsaðilar væru að misreikna hversu mikla þörf við hefðum til útgáfu skuldabréfa á alþjóðlegum skuldabréfamörkuðum þar sem innlánasöfnun okkar gekk vel á öllum þeim mörkuðum í Evrópu sem við söfnuðum innlánum. Eins barst okkur til eyrna marg oft að ákveðnir fjárfestingarsjóðir hefðu sett upp veðmál gegn Kaupþingi með það að markmiði að hagnast ef áföll myndu ganga yfir alþjóða fjármálamarkaði.

Fulltrúar Kaupþings áttu fundi í byrjun febrúar 2008 með yfirmönnum Deutsche Bank m.a. til að ræða stöðuna á CDS markaðnum. Minnisblað dagsett 8. febrúar 2008 af þeim fundi taldi saksóknari ekki ástæðu til að leggja fram í málinu þar sem það væri ekki sönnunargagn í málinu, þrátt fyrir óskir okkar um slíkt. Á fundinum með Deutsche Bank en hann sátu Sigurður Einarsson og tveir starfsmenn skrifstofu bankans í Lundúnum Henrik Gustafsson og Ingemar Sjögren, voru mættir þrír yfirmenn hjá Deutsche Bank í Lundúnum en þeir voru:

Venky Vishwanathan, framkvæmdastjóri á Alþjóða fjármálamörkuðum Deutsche Bank

Miles R. Millar, Yfirmaður skuldabréfaútgáfu á alþjóða fjármálamörkuðum Deutsche Bank

Marius Bengtson, Forstöðumaður á fjármálastofnanasviði Deutshe Bank

Ráðgjöf þessara þriggja yfirmanna hjá Deutsche Bank gagnvart Kaupþingi í febrúar 2008 má draga saman í þremur liðum.

  • Þeir töldu að skuldabréfamarkaðurinn þyrfti að róast en í framhaldinu værði ráðlegt að nýta laust fé hjá Kaupþingi til að kaupa til baka skuldabréf sem bankinn hafði gefið út.
  • Kaupþing ætti að horfa til þess að fá fjárfesta frá Asíu eða Mið Austurlöndum í hluthafahóp sinn
  • Í þriðja lagi að Kaupþing ætti að haga sér þannig að endurkaup á skuldabréfum myndi hafa hámarks áhrif á skuldatryggingaálag bankans.
 Og hvað gerðum við á átta mánaða tímabili frá fundinum, þ.e. frá febrúar fram til október 2008?

Jú, við keyptum skuldabréf til baka sem Kaupþing hafði áður gefið út á alþjóðlegum skuldabréfamörkuðum fyrir u.þ.b. 170 milljónir evra. Kaupin voru í samræmi við ráðleggingu Deutsche Bank og með þeim kaupum minnkuðum við endurfjármögnunarþörf bankans og högnuðumst með því að kaupa til baka skuldabréf á afföllum. Þessi kaup hafa verið rannsökuð af Embætti sérstaks saksóknara í u.þ.b. sjö ár og fengið heitið Lindsor málið.

Í öðru lagi fengum við inn fjárfesta frá Mið Austurlöndum, nánar tiltekið frá Qatar, Sheikh Mohamed Al Thani, þegar við seldum íslensku félagi í fullri eigu hans 5,01% hlut í Kaupþingi haustið 2008. Embætti sérstaks saksóknara ákærði mig og aðra vegna þeirra viðskipta. Ég hlaut dóm í Hæstarrétti árið 2015 m.a. fyrir markaðsmisnotkun vegna þeirra viðskipta. Þar var logið upp á mig sökum þar sem dómurinn komst að þeirri niðurstöðu að Ólafur Ólafsson hefði átt helmingshlut í kaupum Al Thani sem er eins fjarri sannleikanum og frekast getur verið.

Í þriðja lagi fjármögnuðum við kaup viðskiptavina bankans til að kaupa skuldabréf útgefin af Deutsche Bank sem voru tengd skuldatryggingaálagi bankans. Þessi viðskipti voru einnig í samræmi við ráðleggingar Deutsche Bank þar sem bankinn taldi að við myndum ná hámarks árangri á CDS markaðinum með þessum viðskiptum. Kaupþing fjármagnaði kaup viðskiptavina sinna á skuldabréfum útgefnum af Deutsche Bank með tengingu við CDS álag Kaupþings. Embætti sérstaks saksóknara hefur ákært okkur fyrir að fylgja þessari ráðgjöf Deutsche Bank í því máli sem nú er rekið hér í Héraðsdómi.

En hver voru markmið okkar með þessum viðskiptum ?

Var markmiðið að valda Kaupþingi tjóni?

Var markmiðið að auðga ákveðna viðskiptavini á kostnað hluthafa bankans og þar með á minn kostnað þar sem ég var einn af hluthöfum bankans?

Ég vildi óska þess að ég þyrfti ekki að svara spurningum af þessu tagi, því svarið er auðvitað augljóst. Nei, þetta voru ekki markmiðin með viðskiptunum.

Markmiðið var að nýta stöðugt vaxandi innstreymi á innlánsreikninga Kaupþings á sem hagkvæmasta hátt.

Markmiðið var að kanna hvort hægt væri að gera raunveruleg viðskipti á þeim kjörum sem CDS markaðurinn gaf til kynna. Ef það var reyndin var verulegur hagnaðarmöguleiki á þeim markaði.

Markmiðið var að lækka skuldatryggingaálag bankans í samræmi við ráðgjöf frá æðstu stjórnendum Deutsche Bank.

Markmiðið var að bæta stöðu viðskiptavina Kaupþings sem höfðu fjárfest á verðbréfamarkaði með miklum lánum frá bankanum.

Það lágu engin undarleg eða annarleg sjónarmið að baki þessum viðskiptum. Til þeirra var gengið eingöngu með hagsmuni Kaupþings í huga.



Kaupþing Edge

Stóru íslensku viðskiptabankarnir þrír höfðu allir svipað viðskiptamódel á árinu 2008. Kaupþing sem frá upphafi hafði skilgreint sig sem fjárfestingarbanka og hóf útrás í starfsemi sinni í lok síðustu aldar var frumkvöðull meðal íslenskra fyrirtækja í alþjóðlegum fjármálaviðskiptum. Það sést m.a. á því að fyrsta dótturfyrirtæki íslensks fjármálafyrirtækis með starfsleyfi erlendis, Kaupþing Management Company SA í Lúxembourg og ég veitti forstöðu, var stofnað af Kaupþingi árið 1995 og árið 2000 fékk Kaupþing banki Lúxembourg starfsleyfi sem banki. Var það í fyrsta sinn í sögu Íslands sem íslenskur aðili átti banka að fullu fyrir utan Ísland.

Aðrir íslenskir bankar sem höfðu einbeitt sér að viðskiptum innanlands breyttu viðskiptamódeli sínu eftir aldamótin og voru árið 2008 komnir með starfsstöðvar erlendis og markmið um að reka alþjóðlega fjármálastarfsemi.

Þrátt fyrir að um margt hafi íslensku bankarnir verið líkir á árinu 2008 skar Kaupþing sig úr að einu mjög mikilvægu leyti. Okkur hafði tekist ólíkt Glitni og Landsbanka að hefja innlánasöfnun í mörgum ríkjum Evrópu þar sem stöðugt innstreymi var á innlánsreikninga Kaupþings í hverjum einasta mánuði. Og við erum ekki að tala um neinar smá tölur. Okkur tókst frá haustinu 2007 fram til haustins 2008 að safna u.þ.b. 5,5 milljörðum evra, jafngildi 770 milljarða króna, í nýjum innlánum á þessu tímabili.

Enda var það svo að við fögnuðum hverjum nýjum degi í starfsemi okkar á árinu 2008 þar sem innlánin streymdu inn. Til að setja 5,5 milljarða evra í samhengi þá voru heildarskuldabréfaflokkar útgefnir af Kaupþingi u.þ.b. 12 milljarðar. Við gátum sem sagt með sama áframhaldi á tveimur árum endurgreitt öll skuldabréf sem bankinn hafði gefið út. Næsti stóri gjalddagi á skuldabréfum útgefnum af Kaupþingi var í maí 2009 að fjárhæð 500 milljónir evra. Áætlanir okkar um vöxt Kaupþing Edge sem við gerðum haustið 2007 gengu ótrúlega vel eftir. Það má sjá í tölvupósti frá mér til samstarfsmanna minna frá maí 2008 og við höfum lagt fram að metnaðarfull áætlun okkar um innlánssöfnun gekk eftir. Samkvæmt áætluninni gerðum við ráð fyrir að safna 10 milljörðum evra í nýjum innlánum fram til haustins 2009 eins og sjá má á skjali sem við höfum einnig lagt fram. Haustið 2008 var allt sem benti til þess að það markmið næðist fyrr en áætlað var enda var septembermánuður metmánuður í fjölda nýrra innlánseiganda frá upphafi.

En hvers vegna er ég að eyða dýrmætum tíma háttvirts dóms í umfjöllun um þetta atriði? Ástæðan er sú að megin forsenda kaupanna á skuldabréfum útgefnum af Deutsche Bank með tengingu við CDS álag Kaupþings var nefnilega góður gangur í innlánasöfnun bankans. Það er ljóst að ef við hefðum ekki verið að safna innlánum á þessum hraða hefðum við aldrei gengið til þessara viðskipta við Deutsche Bank. Grunnforsenda fyrir fjármögnun á skuldabréfunum var góður gangur í innlánasöfnun bankans og alger sannfæring okkar um að rekstur bankans stæði á traustum fótum.

Samt er það þannig að í skýrslu rannsakenda sem er upp á tæplega 200 blaðsíður er hvergi vikið að þessari staðreynd. Ástæðan fyrir því er sú að skýrsla rannsakenda er ekki skýrsla embættis hlutlægs saksóknara. Skýrslan er handrit að sakfellingu embættis sem löggjafinn setti á fót til að koma örfáum einstaklingum sem voru í forsvari fyrir banka í einkaeigu í fangelsi. Eða heldur einhver með fullu viti því fram að hlutlægni hafi verið gætt við rannsóknir hjá Embætti sérstaks saksóknara?

Það er etv fræðilega hægt að gera þær siðferðiskröfur til einstaklinga sem réðu sig á árunum 2009 til 2010 til Embættis sérstaks saksóknara þegar óttinn og sársaukinn vegna efnahagshrunsins var hvað mestur hjá þjóðinni til að gæta hlutlægni við störf sín en hversu líklegt er það? Er ekki ljóst að allir þeir sem völdust til starfa hjá embættinu mættu til vinnu með það að markmiði að fá fyrrum bankamenn dæmda í fangelsi? Heldur einhver því fram að sannleiksást hafi verið drifkrafturinn í störfum embættisins, þar sem jafnt var horft til atriða sem leiddu til sektar og sýknu?

Þetta sést bersýnilega þegar skoðuð er rannsóknaráætlun embættis sérstaks saksóknara í þessu máli. Sú áætlun er dagsett í nóvember 2009 og er þar fullyrt að brotið hafi verið gegn innri reglum bankans og ákvæðum hegningarlaga.



Skýrsla rannsakenda og aðgangur að gögnum

Nú hef ég orðið meiri reynslu en ég hafði óskað mér í rekstri sakamála en þetta mál er fjórða sakamálið sem er höfðað gegn mér af Embætti sérstaks saksóknara.

Áður en til Embættis sérstaks saksóknara hafði verið stofnað var reynsla mín af rekstri dómsmála einskorðuð við að vera vitni í einu sakamáli og í öðru tilviki var ég sérfróður meðdómari þar sem deilt var um verðmæti hlutafélags.

Í greinargerð minni eru fjölmörg atriði tiltekin sem varða frávísun þessa máls og ég ætla mér ekki að tiltaka hér að nýju.

En það er tvennt sem ég get ekki látið hjá líða að minnast á.

Í fyrsta lagi er það skýrsla rannsakenda. Dómsstólar mega ekki gera ráð fyrir að sú skýrsla sé unnin af hlutlægum saksóknara. Því það er hún ekki. Það væri miklu nær að kalla skýrsluna handrit að sakfellingu. Því hvergi er vikið að sjónarmiðum sakborninga í skýrslunni og hvergi er reynt að varpa ljósi á hvaða huglæga afstaða lág að baki ákvörðunartökunni.

Áhyggjur mínar í þessu máli og öðrum sem hafa verið höfðuð af Embætti sérstaks saksóknara gegn mér snúast að því gríðarlega mikla gagnamagni sem lagt er fram og skýrslu rannsakenda.

Ég óttast að Háttvirtur dómur geti illa fengið góða heildaryfirsýn með því að fletta á sjötta þúsund blaðsíðum sem ekki eru í neinni sérstakri tíma- eða atvikaröð. Freistingin verður þá að horfa til skýrslu rannsakenda til að fá heildaryfirsýn yfir málið.

Í réttarfari okkar er gert ráð fyrir munnlegum málfutningi. Skýrsla rannsakenda er auðvitað ekkert annað en skriflegur málflutningur Embættis sérstaks saksóknara.

Það sem gerir þessa stöðu enn alvarlegri er sú staðreynd að á sama tíma og ákæruvaldið drekkir virðulegum dómi í gögnum sem eru handvalin af ákæruvaldinu sjálfu þá er ákærðu og verjendum þeirra neitað um aðgang að haldlögðum gögnum málsins. Þetta er sú staða sem ég hef þurft að búa við allt frá upphafi rannsóknar sérstaks saksóknara og undir rekstri fjögurra sakamála.

Við hljótum öll að vera sammála um það að það gengur ekki upp að dómsstólar veiti ákæruvaldi fullkomið frelsi til að velja og hafna gögnum í mál. Við sjáum það með áþreifanlegum hætti í þessu máli. Þar sem ákæruvaldið teflir fram á sjötta þúsund síðum af gögnum en sleppir minnsiblaðinu frá fundi með Deutsche Bank í febrúar 2008 og sleppir gögnum um innflæði á EDGE reikninga sem sýna glöggt hvernig allar áætlanir um innlánasöfnun höfðu gengið eftir, og rúmlega það, og það sem enn meira máli skiptir – hvers vegna stjórnendur bankans voru í fullkomlega góðri trú um að bankinn stæði styrkum fótum og myndi standa af sér allar þrengingar á lánsfjármörkuðum.

Eða hvaða skýringu ætla starfsmenn Embættis sérstaks saksóknara að gefa á því að minnisblaðið frá Ingemar Sjögren um ráðlegginguna frá Deutsche Bank er ekki í gögnum sínum.

Ég fékk daglega tölvupósta um innflæðið í Kaupþing Edge til mín. Hvers vegna hefur ekki einn af þeim tölvupóstum ratað í gögn málsins?

Það eru tölvupóstar um hvernig innflæðið á nýjum innlánum þróaðist borið saman við áætlun í upphafi. Er það ekki sönnunargagn í málinu? Getur það ekki skipt máli við mat á huglægri afstöðu minni og hvers vegna Kaupþing gekk til þessara viðskipta?

Ég vil fá að nota þetta tækifæri til þess að þakka dómsformanninum, Pétri Guðgeirssyni, fyrir úrskurðinn þar sem hann heimilaði mér aðgang að tölvupóstum viðskiptastjóranna sem höfðu með lánveitingarnar að gera sem ákært er fyrir. Ég get satt að segja ekki lýst því með orðum hve mikilvægt það er fyrir mann í minni stöðu að geta gengið úr skugga um hvað er rétt og hvað er rangt í svona máli. Það er auðvitað algjörlega óþolandi að vita að til eru gögn sem ég hef aldrei fengið að sjá, gögn sem ég held að myndu sýna að sannleikurinn í þessum sakamálum sem rekin hafa verið gegn fyrrum stjórnendum Kaupþings er allt annar en ákærandinn vill láta líta út fyrir.

Í ákærunni er mér gefið að sök að hafa veitt lán án trygginga. Einn af þeim tölvupóstum sem við fundum í pósthólfi viðskiptastjórans Halldórs Bjarkar er staðfesting frá Lögfræðisviði Kaupþings Lúxembourgar á því að umrædd skuldabréf útgefin af Deutsche Bank hafi verið læst og meðfylgjandi tölvupóstinum var útprentun úr tölvukerfi bankans af skjámynd “Locked Securities”. M.ö.o. saksóknari hélt eftir tölvupósti sem sannaði það að Kaupþing var með tryggingu í skuldabréfunum útgefnum af Deutsche bank ólíkt því sem haldið er fram í ákæru.

Ég hef alltaf sagt þeim sem rannsökuðu þetta mál - og sagt það samkvæmt bestu vitund - að ég hafi ekki gefið fyrirmæli um lánveitingarnar sem ákært er fyrir eða gefið fyrirmæli um að svara veðköllunum þegar þau komu. Í ákærunni er margsagt að ég hafi tekið allar ákvarðanirnar sem ákært er fyrir og gefið fyrirmæli um útborganirnar. Ég man þetta ekki þannig. Satt að segja var ég farinn að efast um eigið minni þegar ég las ákæruna þar sem aftur og aftur er fullyrt að ég hafi látið veita lán og ákveðið að svara veðköllum. Manni er sagt að ákæra komi frá hlutlausum ákæranda sem gefi þá fyrst út ákæru að hann sé búinn að rannsaka málið og hafi með rannsókninni fundið sönnunargögn sem sýni sektina. Maður vill ekki trúa því að nokkur ákærandi leggist svo lágt að gefa út ákæru á hendur manni og krefjist þess að honum verði refsað þegar hann veit að hið sanna er annað.

Þegar ég fór yfir pósthólfið hjá viðskiptastjóranum Halldóri Bjarkari þá blasir það við að minni mitt er rétt. Þar er hægt að rekja meira og minna hvernig aðdragandi lánveitinganna var. Það er alveg ljóst þegar allir tölvupóstar hans eru skoðaðir að framburður hans hjá lögreglu er rangur. Hann snýr 180 gráður í framburði sínum á milli áranna 2010 og 2012 en í seinni yfirheyrslunni heldur hann því fram að hann hafi verið í beinu samskiptum við mig sem hafi gefið sér fyrirmæli um útgreiðslur lána. Það er lygi og raunar tel ég það blasa við að starfsmenn Embættis sérstaks saksóknara gera sér grein fyrir því þegar yfirheyrslan yfir Halldóri Bjarkar árið 2012 er lesið. T.a.m. má lesa úr yfirheyrslunni að það kom rannsakendum á óvart hvers vegna Halldór Bjarkar sendi pósta á Bjarka Diego næsta yfirmann sinn og leitar eftir heimild til útgreiðslu ef framburður hans væri réttur að ég hafi gefið honum fyrirmæli um útgreiðslu. Slíkur póstur til Bjarka Diego hefði verið með öllu óþarfur ef breyttur framburður hans var réttur.

Við fundum einnig póst frá 10. september 2008 frá Halldóri Bjarkari til Lara Schweiger og Sölva Sölvasonar starfsmanna Kaupthing Luxembourg þar sem hann segir þeim að útgreiðsla frá Kaupþingi verði tveimur dögum seinna og það verði gert í formi peningamarkaðsláns þar til allri skjölun er lokið. Þennan póst taldi ákærandi að væri ekki sönnunargagn í málinu. Þrátt fyrir að þessi póstur sé sönnun á því að viðskiptastjórinn Halldór Bjarkar hafði nægan tíma til að fylgja réttum ferlum við úgreiðslu lánsins.

Póstur frá Halldóri Bjarkari til Antoine Lochet lögmanni hjá BBA Legal þann 22. september 2008 segir efnislega að öll félögin sem hafi fengið lán hjá Kaupþingi séu undir stjórn lögfræðideildar Kaupþings í Lúxembourg. Núverandi skipulag viðskiptanna sé því í góðu lagi. Embætti sérstaks saksóknara taldi þennan tölvupóst ekki eiga erindi í málið.

Þann 3. október 2008 sem var síðasti viðskiptadagurinn með hlutabréf í Exista og Kaupþingi áður en Kauphöllin setti þau bréf á athugunarlista og í framhaldinu stöðvaði viðskipti með félögin seldi Halldór Bjarkar öll hlutabréfin sín í þessum tveimur félögum.

Halldór Bjarkar bjó á þessum tíma yfir meiri upplýsingum um útlánamál hjá Kaupþingi en almennir fjárfestar og raunar hefur gefið þá skýringu fyrir sölunni að honum hafi ekki litist á útlánamálin hjá Kaupþingi. Hann hefur sem sagt gefið sem skýringunni fyrir sölu hlutabréfanna að hann hafi komist yfir meiri upplýsingar en almennir fjárfestar og í framhaldinu ákveðið að selja bréfin í kauphöllinni.

Hann bjó einnig yfir mun meiri upplýsingum um málefni Exista en almennir fjárfestar þar sem hann var einn af viðskiptastjórum Exista hjá Kaupþingi. Hann var í daglegu sambandi við fjárstýringu Exista þar sem hann er vel upplýstur um þróun lausafjárstöðu félagsins á mjög krítískum tíma.

Við höfum séð tvær ákærur frá Embætti sérstaks saksóknara vegna innherjasvika sem hafa leitt til sakfellinga á undanförnum árum með hlutabréf í Landsbanka Íslands og Glitni. Í báðum þeim tilvikum var um að ræða viðskipti sem áttu sér stað löngu fyrr en 3. október líkt og í tilviki Halldórs Bjarkar. Í báðum tilvikum var einungis um að ræða viðskipti með hlutabréf í einu hlutafélagi en ekki tveimur.

En hvers vegna skiptir það máli við úrlausn þessa máls vitneskja um innherjasvik Halldórs Bjarkar? Jú, þetta er megin ástæða þess að hann breytti framburði sínum hjá lögreglu við rannsókn þessa máls á milli yfirheyrslana 2010 og 2012. Í Al Thani málinu breytti hann einnig framburði sínum eftir því hvort hann var spurður af slitastjórn Kaupþings, innri endurskoðanda Kaupþings, Embætti sérstaks saksóknara eða fyrir fram dómara.

Með því að beina sök að mér tókst Halldóri Bjarkari að sleppa við saksókn frá Embætti Sérstaks saksóknara og sitja á þýfi sínu. Eða hvað viljum við kallað það annað en þýfi þegar aðili nýtir sér upplýsingar sem hann hefur umfram markaðsaðila til að selja hlutabréf sín og velta tjóninu á aðra fjárfesta. Hvað með þá fjárfesta sem keyptu bréfin af Halldóri Bjarkari? Ætlar Embætti Sérstaks saksóknara sem hefur greinilega lagt blessun sína yfir viðskiptahætti af þessu tagi að bæta þeim það?

Með því að breyta framburði sínum í þá átt sem Halldór Bjarkar taldi að Embætti sérstaks saksóknara vildi heyra tókst honum eftirfarandi:

Í  fyrsta lagi að sitja á andvirði sölunnar sem var u.þ.b. 5 milljónir króna. Ef hann hefði sætt ákæru og verið fundinn sekur hefði hann þurft að sæta upptöku allra fjármunanna sem hann fékk fyrir sölu bréfanna.

Í  öðru lagi tókst honum að halda stöðu sinni sem framkvæmdastjóri hjá Kaupþingi. Það má gera ráð fyrir að laun hans hjá Kaupþingi og Arion banka síðustu 7 ár séu u.þ.b. 150 milljónir króna.

Í  þríðja lagi tókst honum með því að ljúga sökum upp á fyrrum samstarfsmenn sína að komast hjá ákæru frá Embætti sérstaks saksóknara um innherjasvik og frelsissviptingu í kjölfarið.

Um þessi atriði var Hérðasdómur Reykjavíkur ekki upplýstur þegar trúverðugleiki vitna var metinn við rekstur Al Thani málsins. Það er ekki of djúpt í árinni tekið að fullyrða að Halldór Bjarkar hafi verið lykilvitni saksóknara í því máli. Ég þori að fullyrða að Héraðsdómur hefði metið framburð Halldórs Bjarkar með allt öðrum hætti og ótrúverðugan ef dómurinn hefði verið upplýstur um innherjasvik hans.

Af persónulegri reynslu minni get ég fullyrt að það er nær ómögulegt fyrir einstaklinga að verjast málssóknum ef dómsstólar gefa ákæruvaldinu algert sjálfsvald um hvaða gögn eru talin til sönnunargagna og hvaða gögn eru ekki sönnunargögn. Það á líkast til aldrei eins vel við og þegar saksóknara embætti er sett upp í þeim sérstaka tilgangi að lögsækja ákveðinn útvalinn hóp manna og við rannsókn mála er síðan eytt yfir sjöþúsund milljónum króna og ráðið á annað hundrað starfsmenn. Þrýstingurinn á að gefa út ákæru hjá slíku embætti er auðvitað ótrúlega mikill og slík staða víðsfjarri eðlilegu starfsumhverfi saksóknara sem skal líta jafnt til þeirra atriða er horfa til sektar og sýknu við rannsókn mála.



Útgáfa hlerunarúrskurðar

Í skjölum málsins á bls 3806 er hlerunarúrskurður sem Benedikt Bogason gaf út þann 17. maí 2008.

Við höfum haft rökstuddan grun um að þetta skjal sé falsað og það viti bæði Hæstaréttardómarinn Benedikt Bogason og sérstakur saksóknari Ólafur Þór Hauksson. Vitnisburður Jóns Óttars Ólafssonar fyrir dómi í máli nr. S -591 / 2014 staðfesti fölsunina. Fleiri fyrrum starfsmenn Embættis sérstaks saksóknara hafa fullyrt í mín eyru að það sé almenn vitneskja starfsmanna Embættis sérstaks saksóknara að ekki hafi verið rétt staðið að útgáfu hlerunarúrskurðarins og um skjalafals sé að ræða. Þrátt fyrir að þetta liggi fyrir er Embætti sérstaks saksóknara að leggja þetta skjal fram í fjórða sinn.

Ætla dómstólar ekkert að gera með það? Hvaða skilaboð eru það til sakborninga og ákæruvalds? Má saksóknari sem sagt leggja fram falsað skjal ef hann passar sig bara að hafa dómara með sér í svikum?

Háttvirtur dómur, það líður vart sá dagur að mér verði ekki hugsað til þessa. Eftir að löggjafinn hafði ákveðið að stofna nýtt saksóknara embætti með það að markmiði að sefa reiði almennings eins og fram kemur í greinargerð með lögum um stofnun embættisins varð ég og aðrir fyrrum bankamenn að treysta á dómstóla landsins. Það var alveg ljóst frá upphafi að við myndum ekki njóta hlutlægrar meðferðar hjá hinu nýja embætti.

Þess vegna olli það mér meiri vonbrigðum en orð fá líst þegar mér varð ljóst hvernig Benedikt Bogason fór með valdið sem honum var falið sem dómara. Að ljúga til um þinghald, að ljúga til um að hafa kynnt þér gögn sem var forsenda fyrir hlerunarúrskurðinum á sama tíma og þú ert að taka ákvörðun um jafn mikið inngrip í einkalíf fólks líkt og hlerunarúrskurður er. Í mínu tilviki var ég að losna úr tveggja vikna einangrun. Samtölin sem starfsmenn embættis sérstaks saksóknara hlustuðu á voru aðallega við lögmann minn Hörð Felix Harðarson og eiginkonu mína sem var búsett erlendis. Hlerunin átti sér stað eftir að ég hafði setið í yfirheyrslum og svarað öllum spurningum sem til mín var beint. Spurningum sem mér var heimilt að neita að svara.

Það er því ekki nóg með að lögbrot hafi verið framið við útgáfu hlerunarúrskurðarins. Það er líka verulegt vafamál hvort þetta sé eðlileg notkun á hlerunarheimild að hlera síma sakaðs manns sem er að losna úr gæsluvarðhaldi. Lög- og siðleysi þess að hlera og varðveita símtöl sakborninga og lögmanna þeirra er síðan algert.



Ákæran

Kafli I

Í fyrsta kafla ákærunnar er mér gefið að sök að hafa látið bankann veita þremur eignalausum eignarhaldsfélögum lán og stefnt með því fjármunum bankans í verulega hættu.

Félögin sem um er ræðir eru: Charbon Capital, Holly Beach og Trenvis.

Það er ansi margt rangt við þessa atvikalýsingu.

Í fyrsta lagi voru félögin ekki eignalaus. Félögin þrjú áttu þriðjungshlut hvert í Chesterfield United Inc. sem var eigandi að skuldabréfi sem Deutsche Bank hafði gefið út og var tengt við skuldatryggingarálag Kaupþings.

Með öðrum orðum þá var eign sem stóð til trygginga skuldbindingum þeirra. Eini kröfuhafi allra félaganna var Kaupþing. Það er vert að hafa í huga að á árinu 2008 voru einungis 12 fyrirtæki í rekstri í Bandaríkjunum með hæsta lánshæfismat lánshæfisfyrirtækjanna eða AAA. Það voru hins vegar yfir 60.000 eignarhaldsfélög stofnuð í sérstökum tilgangi eða svokölluð SPV með AAA lánshæfismat. Hver ætli staðan á Íslandi hafi verið á árinu 2008. Hvaða innlendi aðili sem var ekki með ríkisábyrgð naut bestu kjara við fjármögnun sína sem endurspeglaði hátt lánstraust? Það var félag sem Kaupþing setti upp og var SPV og átti íbúðalán sem bankinn hafði veitt. Með öðrum orðum þá naut félag sem var eignalaust þegar fyrsta lánveiting til þess fór fram til þess og með lítið sem ekkert eigið fé betra kjara en bankinn sjálfur. Hvernig stóð á því? Ástæðan var sú að félagið átti traustar eignir í formi íbúðalána og stundaði enga aðra starfsemi. Þetta félag er ein af lykilforsendum þess að Kaupþing gat keppt við Íbúðalánasjóð sem naut ríkisábyrgðar. Á þriðja ársfjórðungi 2008 voru áætlaðar heildareignir SPV félaga sem höfðu fjármagnað sig til kaupa á ýmsum fjármálagjörninum í Bandaríkjunum 10,2 trilljónir bandaríkja dollara. Hugmyndin á bak við Chesterfield United Inc. var í grunninn sú sama og annarra SPV félaga sem stofnuð voru utan um securitization eða verðbréfun á íslensku. Þetta form var alþekkt innan allra alþjóðlegra fjármálafyrirtækja jafnt í dag og á þessum tíma.

Chesterfield var sett upp í þeim eina tilgangi að eiga skuldabréfin á Deutsche Bank. Það var gert til að tryggja hagsmuni bankans sem lánveitanda algerlega þvert á það sem má lesa útúr kæru Embættis sérstaks saksóknara þar sem látið er að því liggja að við höfum stefnt fjármunum bankans í hættu með því að stofnað var nýtt félag vegna kaupanna á skuldabréfunum útgefnum af Deutsche Bank. Hvernig getur saksóknari snúið sannleikanum svona gjörsamlega á hvolf?

Við lánveitingu getur bankinn með þremur mismunandi hætti tryggt útlán sitt:

Í  fyrsta lagi með því að veðsetja undirliggjandi eign.

Í  öðru lagi með því að hafa svokallað negative pledge eða veðsetningarbann.

Í  þriðja lagi með því að setja upp SPV eða eignarhaldsfélög í þeim eina tilgangi að eiga ákveðna eign eða fjármálagjörning. Þessa leið völdum við þegar ákveðið var skipulag lánveitingarinnar vegna kaupanna á skuldabréfunum útgefnum af Deutsche Bank. Vert er að ítreka að ekkert tjón varð vegna þess hvernig skipulag lánveitingarinnar var útfærð og engin áhætta fylgdi þessu skipulagi umfram beina veðsetningu.

Áhættan sem Kaupþing tók við þessa lánveitingu var því klárlega ekki áhætta af ótryggðu láni til eignalauss félags heldur láni til félaga sem áttu skuldabréf útgefið af einstaklega traustu fjármálafyrirtæki. Raunveruleg áhætta Kaupþings í þessum viðskiptum var áhætta af greiðsluþroti Deutsche Bank eða Kaupþings. Það er áhættumatið sem ég og aðrir stjórnendur Kaupþings stóðum frammi fyrir þegar gengið var til þessara viðskipta en ekki sá sýndarveruleiki sem ákæruvaldið reynir að bregða upp.

Það er rangt sem kemur fram í fyrsta. kafla ákærunnar að ég hafi látið bankann veita lán vegna þessara viðskipta. Eina aðkoman mín að lánveitingunum var að kynna fyrirhuguð viðskipti fyrir viðskiptastjórum sem áttu þar með að bera ábyrgð á ferlinu innan bankans og svo síðar sem einn af lánanefndarmönnum hjá lánanefndum Kaupþings.

Það voru ítarlegir ferlar til um hvernig staðið skildi að lánveitingum innan bankans og viðskiptastjórar á fyrirtækjasviði báru einna mestu ábyrgðina innan þeirra ferla. Það er rangt sem stundum hefur verið gefið til kynna að viðskiptastjórarnir hafi verið líkt og óbreyttir bankastarfsmenn. Viðskiptastjórar á fyrirtækjasviði Kaupþings voru meðal hæst launuðustu starfsmanna bankans og algengt að árslaun þeirra væru á bilinu 20 til 30 milljónir króna. Há laun endurspegluðu mikla ábyrgð sem þeir báru í starfi sínu við að fylgja réttum ferlum.

Aldrei í starfi mínu hjá Kaupþingi óskaði ég eftir því við viðskiptastjóra að fara ekki eftir ferlum við lánveitingar. Sökum stærðar og umfangs Kaupþings var mér það með öllu ómögulegt að fylgjast með daglegum störfum viðskiptastjóra og hvort þeir hafi gætt að réttum ferlum hafi verið fylgt við afgreiðslu útlána. Engin yfirlit voru send til mín um útgreiðslu lána svo ég gat ekki fylgst með hvaða lán voru greidd út hvaða dag.

Bara til að setja þetta í samhengi fyrir ykkur háttvirtu dómara þá störfuðu fleiri viðskiptastjórar við útlánastarfsemi hjá samstæðu Kaupþings heldur en flugstjórar hjá Icelandair. Ætla dómsstólar landsins að fara gera þá kröfu til forstjóra Icelandair að hann beri ábyrgð á störfum flugstjóra sem fer út fyrir vinnuferla sem hann á að starfa eftir? Auðvitað ekki.

Ég taldi og mátti treysta því að viðskiptastjórarnir sem höfðu lánamálið með höndum myndu leita samþykkis þeirra einstaklinga sem þurfti til gildrar lánaákvörðunar.



Kafli II

Í öðrum kafla ákærunnar er mér gefið að sök að hafa látið bankann veita Chesterfield United Inc lán með þrennum hætti.

Er því lýst að um sé að ræða 50 milljón evra lán sem veitt hafi verið 22. september 2008, 50 milljón evra lán sem veitt hafi verið 29. september 2008 og 25 milljón evra lán sem veitt hafi verið 7. október 2008.

Þetta er alrangt. Ég gaf engin fyrirmæli um að veita skyldi umrædd lán, hvorki einn né í sameiningu með Sigurði Einarssyni. Þá gaf ég engin fyrirmæli um að lán skyldi veitt án þess að ferlum væri fylgt og samþykkis lánanefnda aflað. Þá var ég ekki í beinum samskiptum við viðskiptastjórann Halldór Bjarkar sem gaf fyrirmæli um lánveitingar vegna veðkalla.

Ég tel hins vegar alveg ljóst að ég hafi verið samþykkur því að veita lánin enda lágu verulegir hagsmunir Kaupþings þar að baki. En það er mikilvægt að gera skýran greinarmun á því að vera samþykkur lánveitingu og að gefa fyrirmæli um að veita lán gegn samþykktum ferlum bankans.



Kafli III

Með sama hætti og í fyrsta kafla ákærunnar þá er það ekki rétt sem haldið er fram í þriðja kafla ákærunnar að ég hafi farið út fyrir heimildir og látið Kaupþing lána Harlow Equities S.A. 130 milljónir evra.

Öll sömu sjónarmiðin sem ég rakti hér að fram undir I kafla eiga hér einnig við.



Kafli IV

Í fjórða kafla ákærunnar er mér gefið að sök að hafa látið bankann veita Patridge Management Group S.A. lán í þrennu lagi.

Er því lýst að um sé að ræða 50 milljón evra lán sem veitt hafi verið 22. september 2008, 50 milljón evra lán sem veitt hafi verið 3. október 2008 og 25 milljón evra lán sem veitt hafi verið 7. október 2008.

Öll sömu sjónarmiðin sem ég rakti hér að fram undir II kafla eiga hér einnig við.

Í ákæru er því haldið fram að veruleg fjártjónshætta hafi verið samfara lánveitingunum í fyrsta til fjórða kafla. Framsetningin í ákæru um þetta efni gefur ranga mynd af þeirri áhættu sem í reynd fólst í viðskiptunum og lánveitingunum sem þeim fylgdu. Með kaupum á skuldabréfunum sem útgefin voru af Deutsche Bank var tekin áhætta af hugsanlegu gjaldþroti þess banka annars vegar og Kaupþings hins vegar.

Ég taldi áhættuna gagnvart Deutsche Bank enga vera, enda eitt stöndugasta og stærsta fjármálafyrirtæki veraldar. Að sama skapi taldi ég engar líkur á greiðsluþroti Kaupþings.

Viðskiptin voru alfarið ákveðin með hagsmuni Kaupþings að leiðarljósi. Ég hafði enga persónulega hagsmuni af viðskiptunum eða nokkur sem mér tengdist.

Að því sögðu lýsi ég því yfir að ég er saklaus af ákæru.

Ræðan er birt í heild sinni á Vísi að ósk Hreiðars Más.


Tengdar fréttir




Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×