Erlent

Putin fagnar komu Stoltenberg í NATO

Jón Júlíus Karlsson skrifar
Vladimir Putin, forseti Rússlands segir það velta á fleirum en Rússum að bæta samskiptin við Vesturlönd. Hann fagnar einnig að Jens Stoltenberg sé nýr framkvæmdastjóri NATO. Putin var í viðtali við rússneska ríkissjónvarpið í dag og sagði það vel mögulegt að bæta samskiptin við Vesturlönd.

„Það veltur ekki á okkur. Það veltur frekar á samstarfsmönnum okkar. Ég tel að það sé ekkert sem standi í vegi fyrir eðlilegu samstarfi,“ sagði Putin í dag. Samskipti Rússa við vestrænar þjóðir hafa ekki verið verri síðan í kalda stríðinu og er þar helst um að kenna framgöngu Rússa í Úkraínu. Pútin fagnar því að Jens Stoltenberg, fyrrverandi forsætisráðherra Noregs, stýri nú NATO.

„Okkar samskipti hafa verið mjög góð og við höfum átt persónuleg samskipti. Þetta er mjög skynsamur maður. Við skulum sjá hvernig honum reiðir af í nýju starfi,“ sagði Putin sem gagnrýndi einnig bandaríska fjölmiðla fyrir að bera saman framgöngu Rússa í Úkraínu við innrás Rússa í Téténíu á sínum tíma.

„Þetta er allt önnur staða. Í Norður-Kákasus þá stóðum við frammi fyrir alþjóðlegum hryðjuverkum. Það voru skipulögð glæpagengi sem fengu gögn og vopn erlendis frá. Það er stóri munurinn.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×