Innlent

Pólverjar lýsa yfir stuðningi við að viðræðum við Ísland verði hraðað

Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra.
Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra.
Utanríkisráðherra segir að Pólverjar hafi lýst yfir sérstökum stuðningi við að aðildarviðræðum Íslands við Evrópusambandið verði hraðað. Ráðherrann segir að lögð verði áhersla á sérlausnir fyrir íslenskan sjávarútveg í aðildarviðræðum við ESB, en ekki varanlegar undanþágur frá fiskveiðistefnu sambandsins.

Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, hefur lagt áherslu á að aðildarviðræðum við Evrópusambandið verði hraðað. „Ég hef fengið viðbrögð frá Pólverjum sem að núna hafa tekið við forystu Evrópusambandsins. Það var fundur í Póllandi sem mínir menn voru á fyrir nokkrum dögum og þar kom skýrt fram að Pólverjar myndu í sinni formennskutíð leggja áherslu á að opna fleiri kafla því það væri jú okkar ósk að opna fleiri kafla en hafði verið vilji til á þessari stundu hjá ESB. Og Pólverjarnir lögðu sérstaka áherslu á fisk og landbúnað. Þannig að ég tel að þetta hafi strax haft áhrif," segir Össur.

Utanríkisráðherra sagði í viðtali við Euronews í lok júní að íslenska ríkið þyrfti ekki sérstaka undanþágu frá fiskveiðistefnu ESB. Í þessu tilliti þyrfti ríkið bara regluna um hlutfallslegan stöðugleika. Engin erlend þjóð hefði veitt á íslenska hafsvæðinu í 35 ár og reglur Evrópusambandsins væru þess eðlis að aðrar þjóðir gætu ekki komið í lögsögu Íslands og veitt að vild.

„Varðandi hvort að ríki geti komið hingað inn í efnahagslögsöguna og tekið frá okkur afla þá liggur það alveg fyrir að 70 prósent af okkar stofnum eru staðbundin. Þessi regla um hlutfallslegan stöðugleika tryggir það í reynd að það getur enginn komið í krafti sögulegrar veiðireynslu og reynt að gera tilkall til þess," segir Össur.

Össur segist þeirrar skoðunar að farsælla sé að fara leið sérlausna en að fara fram með kröfu um varanlegar undanþágur frá fiskveiðistefnu sambandsins.

Mun þá umboð samninganefndarinnar í sjávarútvegsmálum grundvallast á því, að ná fram þessum sérlausnum fremur en að krefjast varanlegra undanþága frá fiskveiðistefnu sambandsins? „Já, það er leið sem við höfum fyrst og fremst verið að skoða," segir Össur. thorbjorn@stod2.is



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×