Polar Seafood, útgerðarfyrirtæki Polar Nanoq, hefur leitað til Rauða kross Íslands til að veita skipverjum á grænlenska togaranum áfallahjálp í kjölfar þess að þrír úr áhöfninni voru handteknir í gær í tengslum við hvarf Birnu Brjánsdóttur. Þetta kemur í fram í yfirlýsingu sem fyrirtækið sendi fjölmiðlum í dag.
Þar kemur fram að í nótt hafi lögregla leitað í skipinu og rætt við aðra skipverja. Enginn þeirra er grunaður um aðild að hvarfi Birnu.
Hins vegar rannsakar lögregla einnig fund á umtalsverðu magni af hassi um borð í togaranum en einn skipverji til viðbótar hefur verið handtekinn vegna þess máls. Mun Polar Nanoq halda kyrru fyrir í Hafnarfjarðarhöfn á meðan lögreglan lýkur rannsókn sinni um borð.
„Polar Seafood mun áfram aðstoða yfirvöld á Íslandi vegna málanna og vonar að þau upplýsist sem fyrst. Þá leggur fyrirtækið sig fram um að koma upplýsingum til ættingja skipverja, auk þess sem unnið er að því að útvega áhöfninni áfallahjálp og leitað hefur verið aðstoðar hjá Rauða krossi Íslands,“ segir í tilkynningu fyrirtækisins
Tveir skipverjar hafa verið úrskurðaðir í tveggja vikna gæsluvarðhald grunaðir um aðild að hvarfi Birnu. Ekki liggur fyrir hvort farið verði fram á varðhald yfir þeim þriðja.

