Enski boltinn

Pochettino um Alli: Hann er eins og ótaminn hestur

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Alli og Pochettino á góðri stund.
Alli og Pochettino á góðri stund. vísir/getty
Mauricio Pochettino, knattspyrnustjóri Tottenham, segir að ungstirnið Dele Alli sé eins og ótaminn hestur.

Alli sló í gegn með Tottenham á síðasta tímabili þar sem hann skoraði 10 mörk í 33 deildarleikjum.

Alli sýndi einnig aðra hlið á sér á lokaspretti síðasta tímabils þegar hann kýldi Claudio Yacob, leikmann West Brom, og uppskar þriggja leikja bann fyrir.

„Hann er gríðarlega hæfileikaríkur en var líka svolítið villtur. Núna er hann rólegri en hann má ekki tapa þessari hlið - hún gerir hann að sérstökum leikmanni,“ sagði Pochettino um lærisvein sinn sem kom til Tottenham frá MK Dons í fyrra.

„Þetta er eins og þegar þú reynir að temja villtan hest. Það gengur ekki. Þetta er þroskaferli hjá ungum leikmönnum, að öðlast meiri reynslu og einbeita sér betur að fótboltanum.“

Pochettino segir að samband þeirra Allis sé stórgott.

„Hann er einstakur, frábær náungi. Okkar samband er mjög gott. Hann er mjög tilfinningaríkur og við elskum hann allir,“ sagði Argentínumaðurinn.

Tottenham, sem er í 3. sæti ensku úrvalsdeildarinnar, mætir Bournemouth í næsta leik sínum í hádeginu á morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×