Erlent

Penn og Del Castillo ekki til sérstakrar rannsóknar í Mexíkó

Atli Ísleifsson skrifar
Mexíkósk fangelsisyfirvöld flytja nú El Chapo reglulega milli fangaklefa í fangelsinu þar sem hann afplánar dóm sinn.
Mexíkósk fangelsisyfirvöld flytja nú El Chapo reglulega milli fangaklefa í fangelsinu þar sem hann afplánar dóm sinn. Vísir/AFP
Leikararnir Sean Penn og Kate del Castillo eru ekki til sérstakrar rannsóknar hjá mexíkóskum yfirvöldum vegna fundar þeirra og eiturlyfjabarónsins Joaquín „El Chapo” Guzmán í október síðastliðnum.

„Við erum með gjörðir til rannsóknar, ekki sérstakar manneskjur,“ segir Eduardo Sánchez, talsmaður forsetaembættis landsins.

Í frétt SVT er haft eftir Carlos Barragan y Salvatierra, lagaprófessor við háskóla í Mexíkó, að ólíkegt sé að þau Penn og del Castillo verði ákærð, að því gefnu að þau hafi ekki tekið við fé eða gjöfum frá El Chapo. „Ef El Chapo gaf þeim fé eða skartgripi, eða borgaði þeim fyrir að taka upp mynd um hann, þá er hægt að ákæra þau fyrir peningaþvætti.“

Del Castillo hafði milligöngu um fund þeirra Penn og El Chapo þar sem Penn tók viðtal við eiturlyfjabaróninn fyrir tímaritið Rolling Stone. Að sögn ríkissaksóknara Mexíkó stuðlaði fundur þeirra Penn og El Chapo meðal annars að því að hægt var að hafa uppi á El Chapo eftir að hann gróf sér göng úr öryggisfangelsi fyrir um hálfu ári síðan.

Mexíkósk fangelsisyfirvöld flytja nú El Chapo reglulega milli fangaklefa í fangelsinu þar sem hann afplánar dóm sinn. „Hann hefur dvalið í átta mismunandi klefum síðan hann sneri aftur,“ segir Sanchez, en fangaverðir vakta hann allan sólarhringinn.

El Chapo var einn alræmdasti fíkniefnasmyglari heims áður en hann var handsamaður. Glæpagengi hans smyglaði kókaíni, heróíni og amfetamíni frá Mexíkó til Bandaríkjanna.


Tengdar fréttir

Lygileg atburðarás leiddi til handtöku El Chapo

Bandaríski leikarinn Sean Penn er sagður hafa leitt yfirvöld að Joaquin Guzman, en hann tók leynilegt viðtal við hann stuttu eftir að hann slapp úr mexíkósku fangelsi.

Óvissa með framsal El Chapo

Óvissa ríkir um framsal kókaínbarónsins Joaquín Guzmán, oft kallaður El Chapo, til Bandaríkjanna frá Mexíkó. El Chapo var handsamaður í Mexíkó um helgina, hálfu ári eftir að hann slapp úr fangelsi þar í landi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×