Enski boltinn

Pellegrini hefur áhyggjur af sínu liði fyrir Manchester-slaginn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Manuel Pellegrini.
Manuel Pellegrini. Vísir/Getty
Manuel Pellegrini, knattspyrnustjóri Manchester City, viðurkenndi að hann hafi áhyggjur af sínu liði fyrir borgarslaginn í Manchester um næstu helgi eftir að Manchester City liðið datt út fyrir Newcastle í enska deildabikarnum í gærkvöldi.

Manchester City hefur þar með tapað tveimur leikjum í röð á stuttum tíma en liðið lá á móti West Ham í ensku úrvalsdeildinni um síðustu helgi og hafði síðan nokkrum dögum fyrr misst unninn leik niður í jafntefli á móti CSKA Moskvu í Meistaradeildinni.

„Við verðum að taka á þessu eins fljótt og auðið er," sagði Manuel Pellegrini eftir leikinn í gær en hann nefndi þar skort á trausti og sjálfstrausti innan liðsins.

Pellegrini gerði sjö breytingar á liðinu sem tapaði á móti West Ham en Yaya Toure var í hópi tíu landsliðsmanna sem byrjuðu leikinn.

„Við erum ekki að spila vel og það vantar meira traust innan liðsins. Við erum líka að fá á okkur of mörg auðveld mörk og nýtum ekki færin okkar," sagði Manuel Pellegrini.

„Auðvitað höfum við áhyggjur af þessu. Við unnum engan af þremur leikjum okkar í þessari viku. Við verðum bara að finna lausnina," sagði Pellegrini.

„Liðið þarf að finna aftur sjálfstraustið því það er ekkert eðlilegt við það hvernig liðið er að spila í síðustu leikjum," sagði Pellegrini en Manchester City tekur á móti nágrönnum sínum í Manchester United á sunnudaginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×