Körfubolti

Pálína: Eigum að stöðva ljót ummæli úr stúkunni

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Pálína Gunnlaugsdóttir, leikmaður Hauka, var ósátt eftir leik Hauka og Snæfells í Domino's-deild kvenna eins og áður hefur verið fjallað um.

Eftir leik sagði hún að það hefði verið leiðinlegt að hlusta á stuðningsmenn Snæfells. „Þetta er fullorðið fólk og það lætur út úr sér mjög dónaleg orð,“ sagði Pálína þá en viðtalið vakti mikla athygli.

Sjá einnig: „Allt saman fullorðið fólk sem ætti að skammast sín

Hún var útskýrði mál sitt frekar í kvöldfréttum Stöðvar 2 í gær og byrjaði á því að hrósa liði Snæfells með frammistöðuna sem tryggði því Íslandsmeistaratitilinn.

„Þær voru ekkert smá flottar. Miklar ofurhetjur,“ sagði Pálína sem á sex ára dóttur sem fylgist vel með móður sinni inni á vellinum.

„Mér fannst ekki í lagi að ég þyrfti að útskýra fyrir sex ára gömlu barni af hverju það var verið að segja eitthvað ljótt um mömmu hennar. Mér fannst það bara leiðinlegt.“

Hún ítrekar að ummælin beinist ekki endilega að þeim áhorfendum sem voru á leiknum í fyrrakvöld en vill að þetta verði almennt tekið til greina.

„Við getum breytt þessu. Ef við heyrum í einhverjum sem er með blammeringar í garð einhvers, þá eigum við bara að stöðva það.“

Pálína var einnig gestur Akraborgarinnar á X-inu í gær en viðtalið má heyra hér fyrir neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×