Innlent

Páley fór ekki eftir stjórnsýslulögum við ráðningu

Birgir Olgeirsson skrifar
Páley Borgþórsdóttir.
Páley Borgþórsdóttir.
Ákvörðun Páleyjar Borgþórsdóttur, lögreglustjóra í Vestmannaeyjum, um ráðningu í starf löglærðs fulltrúa hjá embættinu var ekki í samræmi við stjórnsýslulög. Þetta er niðurstaða umboðsmanns Alþingis vegna kvörtunar umsækjanda um starfið.

Kvörtunin laut annars vegar að því að Páley veitti umsækjandanum ekki andmælarétt í tilefni af upplýsingum sem lögreglustjórinn aflaði um starf umsækjandans og starfstíma hjá öðru embætti lögreglustjóra.

Hins vegar beindist kvörtunin að því að umsækjandanum var synjað um aðgang að tilteknum gögnum málsins, það er ferilskrám umsækjenda sem boðaðir voru í viðtöl en fengu ekki starfið og sundurliðun stigagjafar þeirra.

Var það niðurstaða umboðsmanns að umsækjandinn átti að eiga möguleika á að tjá sig um þær upplýsingar sem lögreglustjórinn aflaði um störf og starfstíma hans hjá öðru embætti lögreglustjóra.

Þá var það niðurstaða umboðsmanns að synjun lögreglustjórans eigi að veit aðgang að hluta umbeðinna gagn, það er gögnum um aðra umsækjendur sem boðaðir voru í viðtal en þann sem var ráðinn í starfi, hafi ekki verið byggð á réttum lagagrundvelli.

Umboðsmaður er þó á því að ólíklegt sé að þessir annmarkar leiði til ógildingar á ráðningunni. Að öðru leyti telur umboðsmaður það vera verkefni dómstóla að fjalla um frekari réttaráhrif þessara annmarka, þar með talið hugsanlega skaðabótaábyrgð ríkisins gagnvart umsækjandanum sem lagði þessa kvörtun fram, telji hann að Páley hafi valdið sér bótaskyldu tjóni. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×