Erlent

Páfinn varar við að einræðisherrar líkt og Hitler komist aftur til valda

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Frans páfi.
Frans páfi. vísir/getty
Frans páfi varar við auknu lýðskrumi í heiminum og hættunum sem felast í því að einræðisherrar á borð við Adolf Hitler komist til valda vegna óvissu og óróa í stjórnmálum.

Þetta sagði páfinn í viðtali við spænska dagblaðið El País um helgina en viðtalið var tekið á föstudaginn, sama dag og Donald Trump tók við embætti forseta Bandaríkjanna.  

Páfinn fordæmdi það að nota veggi og gaddavírsgirðingar til að forða því að fólk kæmist yfir landamæri en hann sagði að það væri of snemmt að dæma Trump.

„Við þurfum að sjá hvað hann gerir,“ sagði páfi en eins og oft hefur komið fram hyggst Trump reisa vegg á landamærum Bandaríkjanna og Mexíkó til að koma fyrir straum innflytjenda frá síðarnefnda landinu og öðrum ríkjum Rómönsku Ameríku.

 

Aðspurður hvort hann hefði áhyggjur af auknu lýðskrumi í Evrópu og Bandaríkjunum sagði að á tímum erfiðleika verði fólk óttaslegið.

„Ég tel að augljósasta dæmið sé lýðskrumið í Þýskalandi árið 1933. Þýskaland er brotið, það þarf að standa upp, finna sig á ný, leiðtoga, einhvern sem er fær um að finna þjóðarsálina á ný og það er ungur maður, Adolf Hitler, sem segir: „Ég get það, ég get það.“ Og allir Þjóðverjar kjósa Hitler. Hitler framdi ekki valdarán, hann var kosinn af þjóðinni og svo eyðilagði hann þjóð sína.“

Páfann og Trump greindi á þegar sá síðarnefndi háði kosningabaráttu sína þar sem páfinn leyfði sér að efast um kristna trú Trump vegna áætlana hans um að byggja vegginn á landamærum Mexíkó og Bandaríkjanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×