Sport

Pacquiao: Sagði bara það sem stendur í Biblíunni

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Pacquiao gengur á Guðs vegum.
Pacquiao gengur á Guðs vegum. vísir/getty
Hnefaleikakappinn Manny Pacquiao vakti mikla reiði með ummælum sínum á dögunum þar sem hann sagði að samkynhneigt fólk sé „verra en dýr“ og að samkynhneigð fyrirfyndist ekki í dýraríkinu.

Pacquiao baðst seinna afsökunar á ummælum sínum en hljómurinn í þeirri afsökunarbeiðni virðist ansi holur ef marka má nýjustu ummæli Filippseyingsins.

„Það var rangt af mér að bera manneskjur saman við dýr en þetta sem ég sagði er satt,“ sagði Pacquiao eftir æfingu í heimalandinu, ef marka má heimildir AFP-fréttastofunnar.

Sjá einnig: Slíta samningi Pacquaio vegna ummæla um samkynhneigða

„Ég sagði bara það sem stendur í Biblíunni. Við trúum á Guð og þess vegna ber okkur að virða orð hans,“ bætti Pacquiao við en hann er afar trúaður maður. Samkynhneigð er ekki bönnuð í Filippseyjum en hjónabönd fólks af sama kyni eru ólögleg.

Pacquiao er í framboði til filippseyska þingsins en talið er að með því sé hann að leggja grunninn að forsetaframboði í framtíðinni.

Sjá einnig: Mayweather er ekki eins fordómafullur og Manny

Pacquiao, sem er 37 ára, ætlar að leggja hanskana á hilluna eftir bardaga við Bandaríkjamanninn Timothy Bradley Jr. í Las Vegas 9. apríl næstkomandi. Þetta verður þriðji bardagi Pacquiao og Bradley en þeir hafa unnið sitt hvorn bardagann til þessa.

Box



Fleiri fréttir

Sjá meira


×