Erlent

Óvopnaður svartur maður skotinn til bana

Samúel Karl Ólason skrifar
Maðurinn er sagður hafa beint einhverju að lögregluþjónum.
Maðurinn er sagður hafa beint einhverju að lögregluþjónum. Mynd/Lögreglan í El Cajon
Lögregluþjónar í El Cajon í Kaliforníu, nærri San Diego, skutu óvopnaðan svartan mann til bana í nótt. Hann er sagður hafa neitað að fara að fyrirmælum lögreglu og að taka hendur úr vösum sínum. Þegar hann lyfti höndunum var hann með „hlut“ í höndunum sem hann beindi að lögregluþjónum.

Áður en hann var skotinn var reynt að yfirbuga hann með rafbyssu. Lögreglan hefur sagt að maðurinn hafi verið óvopnaður, en þeir hafa ekki sagt hvaða hlut hann beindi að lögreglu.

Systir mannsins hringdi á lögreglu og sagði hann vera í andlegu ójafnvægi.

Mótmælendur hafa safnast saman á staðnum þar sem maðurinn var skotinn og hefur því jafnvel verið haldið fram að hann hafi verið skotinn með hendurnar á lofti. Lögreglan neitar því og hefur birt meðfylgjandi mynd þar sem sjá má manninn beina einhverju að lögreglu.

Myndin er fengin úr myndbandi af skotárásinni, sem lögreglan hefur ekki birt.

Hér að neðan má sjá frá blaðamannfundi lögreglunnar og annað myndband sem sjónvarvottur tók. Þar er hún að aðstoða systir mannsins skömmu eftir að hann var skotinn.

Á síðustu tveimur vikum hafa fjögur atvik vakið athygli og leitt til mótmæla þar sem lögregluþjónar skjóta svarta menn til bana.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×