Innlent

Óvissa um starfsemi Aflsins á Akureyri

Sveinn Arnarsson skrifar
Stígamót og Aflið eru systursamtök. Aflið sinnir þjónustu á öllu Norðurlandi.
Stígamót og Aflið eru systursamtök. Aflið sinnir þjónustu á öllu Norðurlandi. fréttablaðið/Daníel
Starfsemi Aflsins, systursamtaka Stígamóta á Akureyri, er stefnt í voða fái félagið ekki fjármagn til reksturs ársins 2015. Aflið sinnir þjónustu fyrir alla sem hafa orðið fyrir kynferðisofbeldi eða heimilisofbeldi og aðstandendur þeirra á öllu Norðurlandi.

Anna María Hjálmarsdóttir, formaður Aflsins, segir starfsemina í mikilli óvissu. Samtökin hafi ekki verið á fjárlögum líkt og Stígamót og þurfi þar af leiðandi að reiða sig á styrki frá ári til árs. Einnig er samningur við Akureyrarbæ laus nú um áramótin og viðræður hafa ekki farið fram um framlengingu á þeim samningi.

„Aflið hefur á þessu ári sinnt um eitt þúsund einkaviðtölum við þolendur kynferðisofbeldis og þörfin á svæðinu er mjög brýn. Svo virðist sem það fjölgi alltaf skjólstæðingum okkar. Við erum með sólarhringsþjónustu fyrir þolendur og höfum svo verið með sjálfshjálparhópa. Óvíst er að þessi vinna verði af sama krafti ef ekki kemur fé til rekstursins,“ segir Anna María.

Aflið er systursamtök Stígamóta en býr við það að vera ekki á fjárlögum líkt og Stígamót. Það rekstrarfé sem Aflið fær er aðeins brot af því sem Stígamót fá árlega til að sinna verki sínu. „Það er einhvern veginn auðveldara að ná í fjármagn nálægt höfuðborginni, maður sér það í þessu sem og öðru. Auðvitað væri það mun betra fyrir okkur að fá einnig að vera á fjárlögum og vita í hvað stefnir,“ segir Anna María.

Rekstur Aflsins á þessu ári verður undir fimm milljónum króna. Telur Anna María að ef vel ætti að vera ætti rekstrarfé að vera í kringum 15-20 milljónir. „Rekstur okkar er erfiður um þessar mundir, Við höfum á þessu ári tæplega fimm milljónir úr að spila og nýtum fjármagnið sem best. En ef við fáum ekki fjármagn á árinu 2015 þá dvínar starfsemin.“

Sigríður Huld Jónsdóttir, formaður félagsmálaráðs Akureyrar, segir það fullan vilja bæjaryfirvalda að Aflið haldi áfram starfsemi sinni. Akureyrarbær hafi hingað til veitt samtökunum húsnæði að kostnaðarlausu og ekki sé á döfinni að breyta því. „Hins vegar er það umhugsunarvert hvers vegna Aflið er ekki á fjárlögum líkt og Stígamót í Reykjavík,“ segir Sigríður Huld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×