Innlent

Óttast að stytting stúdentsprófs bitni á háskólakennslu

Bjarki Ármannsson skrifar
Deildarráð Raunvísindadeildar HÍ skorar á yfirvöld að tryggja áfram nægan undirbúning fyrir háskóla, sérstaklega í stærðfræði.
Deildarráð Raunvísindadeildar HÍ skorar á yfirvöld að tryggja áfram nægan undirbúning fyrir háskóla, sérstaklega í stærðfræði. Vísir/Ernir
Við Verkfræði- og náttúruvísindasvið Háskóla Íslands eru uppi áhyggjur um að stytting náms til stúdentsprófs leiði til þess að erfiðara verði fyrir nemendur að öðlast nægan undirbúning fyrir háskólanám í verkfræði og raunvísindum, þá sérstaklega stærðfræðikunnáttu. Vandséð sé hvernig viðhalda eigi eðlis- og efnafræðikennslu í þeirri mynd sem hún er nú ef af styttingu verði.

Í ályktun sem deildarráð Raunvísindadeildar Háskóla Íslands samþykkti á fundi sínum í síðasta mánuði er skorað á yfirvöld menntamála og skólastjórnendur að leita alla leiða til að tryggja að stúdentspróf í nýju umhverfi veiti enn góðan undirbúning fyrir háskólanám í verkfræði og náttúruvísindum. Í dag miðar háskólinn við að nýnemar í þeim greinum hafi að baki sjö til átta anna nám í stærðfræði.

„Mikilvægt er að framhaldsskólanemendur fái á öllum stigum skýrar leiðbeiningar um hvernig þeir eigi að haga námi sínu til að búa sig undir háskólanám,“ segir í ályktuninni. „Jafnframt styður deildarráð Raunvísindadeildar viðleitni þeirra framhaldsskóla sem vilja halda áfram að bjóða fjögurra ára nám til stúdentsprófs, meðal annars með áherslu á kennslu raungreina.“


Tengdar fréttir

Styttingin gæti haft alvarlegar afleiðingar

Prófessor í félagsfræði segir það geta verið hættulegt að stytta nám til stúdentsprófs. Nemar í stærri árgöngum búi frekar við erfiðar félagslegar afleiðingar en aðrir. Rektorar HA og HÍ hafa ekki miklar áhyggjur af styttingu framhaldsskóla.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×