Skoðun

Óstöðugur gjaldmiðill kallar á háa vexti

Óstöðugur gjaldmiðill er ein meginorsök þess að vextir eru miklu hærri á Íslandi en í nágrannalöndunum. Þessir háu vextir hafa margvísleg áhrif á okkur.

Frá aldamótum hafa vextir af 5-10 ára ríkisskuldabréfum verið tvöfalt hærri á Íslandi en að meðaltali á Evrusvæðinu. Íslenska ríkið hefur þurft að greiða 4,2% hærri vexti en ríkin á Evrusvæðinu að meðaltali. Í dag skuldar ríkissjóður um 1.400 milljarða. Hvert prósent sem ríkissjóður þarf að greiða í hærri vexti kostar okkur því um 14 milljarða króna. Það er því til mikils að vinna að lækka vextina. Tækist okkur að lækka þá varanlega um t.d. 3 prósentustig sparar það okkur 42 milljarða á ári. Þetta eru fjármunir sem samsvara samanlögðum kostnaði við rekstur Landspítalans og Sjúkrahússins á Akureyri, eða þriðjungnum af því sem einstaklingar greiða í tekjuskatt.

Heimilin skulda um 1.500 milljarða. Hvert prósentustig í vöxtum kostar okkur því um 15 milljarða. Frá aldamótum hafa vextir af nýjum húsnæðislánum verið tæplega þrefalt hærri á Íslandi (meðalvextir á Íslandi: 75% Íbúðalánasjóðs og 25% banka) en að meðaltali á Evrusvæðinu. Þessi munur nemur 7,8 prósentustigum. Tækist okkur að brúa þetta bil myndi það spara heimilunum 117 milljarða á ári, sem jafngildir tæplega 17% hækkun á ráðstöfunartekjum heimilanna að meðaltali.

Fyrirtækin skulda tæpa 1.700 milljarða. Hvert prósentustig í lækkuðum vöxtum sparar þeim 17 milljarða á ári. Ef vextir fyrirtækja lækkuðu t.d. um 4 prósentustig yrði sparnaðurinn um 68 milljarðar króna á ári. Það skiptir sköpum fyrir veikburða atvinnulíf að vextir lækki til þess að fjárfestingar aukist. Þær eru nú í sögulegu lágmarki og atvinnuleysi mikið. Auknar fjárfestingar skila sér til launafólks í formi aukinnar atvinnu og aukins kaupmáttar til framtíðar. Ef við viljum sambærileg lífskjör og best þekkjast í nágrannalöndum okkar verðum við að ráðast að rót vandans og tryggja hér stöðugleika og lága vexti. Slíkt gerum við með stöðugum gjaldmiðli og agaðri hagstjórn.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Sjá meira


×