Lífið

Ostborgarasúpan gerði allt vitlaust upp í HÍ: „Það var algjör örtröð í Hámu“

Stefán Árni Pálsson skrifar
Eydís var að fíla þessa súpu.
Eydís var að fíla þessa súpu. vísir
„Þetta var áhugaverð súpa, það er á hreinu,“ segir Eydís P. Blöndal, heimsspekinemi við Háskóla Íslands, um sérstaka súpu sem var í boði í Hámu í HÍ í dag. Háma er mötuneyti háskólans og var boðið upp á ostborgarasúpu í hádeginu.

„Ég varð að sjálfsögðu að prófa súpuna, en mér fannst þetta aðallega fyndið. Það sem mér fannst skemmtilegast við þetta er að ég held að þau í Hámu séu búin að átta sig á krafti samfélagsmiðla og þetta hafi bara verið einhver tilraun hjá þeim, því það varð allt vitlaust upp í skóla. Ég hef aldrei séð svona mikið af fólki í Hámu.“

Mikil umræða hefur skapast um súpuna á Twitter eins og sjá má hér að neðan.

„Ég vil trúa því að þetta hafi verið markaðsfræðileg tilraun hjá Hámu, því það voru gjörsamlega allir mættir í hádeginu til að kíkja á súpuna. Þetta minnti svolítið á Almar í kassanum,“ segir Eydís sem er um þessar mundir að bjóða sig fram í Stúdentaráð og er hún í 1. sæti á lista Röskvu á hugvísindasviði.

„Það var algjör örtröð í Hámu í hádeginu. Ég myndi samt sem áður segja að súpan hafi ekki alveg bragðast eins og ostborgari. Meira svona eins og kjötsúpa, en hún var samt sem áður góð á bragðið. Ég hélt að þetta yrði nú bara venjulegur fimmtudagur en svo reyndist heldur betur ekki.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×