Innlent

Össur ánægður með ákvörðunina

Össur Skarphéðinsson.
Össur Skarphéðinsson.
„Ég er ánægður með ákvörðunina sem við tókum, sem er að hægja á aðildarferlinu," segir Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra um samkomulag stjórnarflokkanna að hægja verulega á aðildarviðræðum við Evrópusambandið.

Spurður hvort þarna sé ekki hreinlega verið að setja aðildarumræðurnar á ís fram að kosningum svarar Össur neitandi; „Þetta felur í sér að vinna í fjórum köflum verður lögð til hliðar fram til kosninga, en áfram verður unnið að þeim köflum sem búið er að opna, og samningamenn munu sinna þeim áfram," segir Össur.

Ríkisstjórnin hittist á aukafundi í dag þar sem rætt var um fyrirkomulag aðildarviðræðna við Evrópusambandið fram yfir kosningar. Fundað var um málið á milli ráðherra og í þingflokkum stjórnarflokkanna. Það var áramótaávarp Steingríms J. Sigfússonar, formanns Vinstri grænna, á vef flokksins, sem vakti titring hjá Samfylkingunni, og úr varð að samkomulag náðist um að hægja með þessum hætti á ferlinu.

Össur áréttar að þetta sé ekki hlé, „og þarna er verið að standa við fyrri fyrirheit," segir Össur um þetta helsta stefnumál Samfylkingarinnar. Það hefur þó ekki farið framhjá neinum að málið hefur reynst ríkisstjórninni þungt, og grasrót Vinstri grænna hefur verið afar óánægð með þessa vegferð.

„Þetta hefur engin áhrif á samstarfið," segir Össur um afleiðingar þessarar ákvörðunar. „Og svo ég bæti við," segir Össur, „með þessu erum við að standa með lýðræðislegu ferli í málinu, því þessi ákvörðun gefur næstu ríkisstjórn tækifæri til þess að setja sitt mark á þessa kafla."

Þess má geta að kaflarnir fjórir sem verða ekki opnaðir á þessari kjörtímabili eru þeir sem varða landbúnað og sjávarútveg og fjárfestingar þeim tengdum. Össur mun nú upplýsa framkvæmdastjórn ESB og formennskuríkið Írland með viðeigandi hætti um þennan umbúnað viðræðnanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×