Innlent

Ósonlagið aldrei verið þynnra

Vegna sterkra geisla sólarinnar er fólki ráðlagt að nota sólvörn þegar það er úti við. Ósonlagið yfir Íslandi er tíu prósentum þynnra en það var fyrir 30 árum. Þykkt ósonlagsins hefur mikil áhrif á það hversu mikið af útfjólubláum geislum sólarinnar nær til jarðar. Þykkt ósonlagsins yfir Íslandi er nú um tíu prósentum undir því sem það var, að meðaltali, á árunum 1978 til 1988. Það þýðir að ósonlagið síar minna af útfjólubláum geislum, en fer þó fjarri því að vera neitt í líkingu við það sem er að finna sunnar á hnettinum. Útfjólublá geislun er mæld með svokölluðum UV stuðli og er 3-5 talin miðlungsgeislun. Í gær var þessi stuðull 3 til 3,5 á Íslandi, sem er nóg til þess að brenna ágætlega, ef farið er óvarlega í sólinni. Þess má geta að að sunnar í heiminum getur útfjólublá geislun orðið margfallt meiri en þetta, samkvæmt UV stuðlinum. Það er því langt frá því að máttarvöldin hafi valið Ísland til einhverrar allsherjar grillveislu á íbúunum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×