Innlent

Ósátt við Dömulega dekurdaga: „Skilaboðin eru skýr; konur eru neysludrifnar“

Kjartan Atli Kjartansson skrifar
Andrea gagnrýnir stefnuna sem hátíðin Dömulegir Dekurdagar hefur tekið.
Andrea gagnrýnir stefnuna sem hátíðin Dömulegir Dekurdagar hefur tekið.
Ekki eru allir jafn sáttir með hátíðina Dömulegir dekurdagar, sem fer fram á Akureyri um helgina. Fyrrum bæjarfulltrúi vinstri grænna segir hátíðina senda skilaboð um útlitsdýrkun. „Skilaboðin eru skýr; konur eru neysludrifnar, hafa áhuga á útliti, líkamrækt, snyrtivörum, fötum, bleikum kokkteilum, háreyðingum og öllu því sem hægt er að kaupa til að bæta útlitið,“ segir hún.

Forsvarsmaður hátíðirinnar segir að þeim sem standi að baki hátíðinni gangi gott eitt til. „Þessi viðburður er viðleitni til að færa gleði og líf í samfélagið á annars mjög daufum tíma,“ segir hún.

Bæjarstjórinn segir að menn þurfi að fara varlega þegar svona hátíðir séu annars vegar. Hann segir að Akureyrabær hafi upphaflega komið að verkefninu til að styrkja konur í atvinnurekstri. „Það hefur verið megin markmiðið hjá okkur. Ég held að menn eigi að líta sér nær ef þetta er farið að snúast um einhverja aðra hluti en það átti að gera upphaflega.“

Andrea Hjálmsdóttir er lektor við HA.
Skilaboðin skýr: Konur eru neysludrifnar

Andrea Hjálmsdóttir er lektor við félagsvísindadeild Háskólans á Akureyri og fyrrum bæjarfulltrúi Vinstri grænna á Akureyri. Hún vakti athygli á málinu í morgun, með beittum skrifum á Facebook-síðu sinni. Þar sagði hún meðal annars:

„Nú get ég, ef mig skyldi kalla, ekki orða bundist. Ef einhver kona á Akureyri hefur verið haldin þeirri ranghugmynd að hún væri hugsandi einstaklingur sem hefði snefil af áhuga á t.d. stjórnmálum, skipulagsmálum, félagsmálum eða samfélaginu almennt þá eru slíkar hugmyndir hressilega leiðréttar nú í október í boði dömulegra dekurdaga,“ og hélt áfram:

„Skilaboðin eru skýr; konur eru neysludrifnar, hafa áhuga á útliti, líkamrækt, snyrtivörum, fötum, bleikum kokkteilum, háreyðingum og öllu því sem hægt er að kaupa til að bæta útlitið. Þar sem við lítum nú aldrei nógu vel út þrátt fyrir svita og tár í snyrtingu, líkamsrækt og verslun þá er boðið upp á EXTREME MAKE-OVER fyrir allra glötuðustu tilfellin. Það er ekkert nýtt að kaupmenn nýti sér staðalímyndir til að markaðsetja og selja vörur til ákveðinna hópa en að þessi skilaboð skuli flæða út í samfélagið með fulltingi og fjármagni Akureyrarbæjar.“

Andrea telur Dekurdaga snúast um neysluhyggju.
Verið að nota gott málefni í öðrum tilgangi?

Andrea bendir á annað atriði er varðar inntakið í Dömulegum dekurdögum, sem hún er ósátt við. „Við þurfum að spyrja okkur hvort það sé verið að nota þetta góða málefni – áherslu á krabbameinsskoðun kvenna – í öðrum tilgangi. Hátíðin er bleik, sem er vísun í bleikan október. En þegar ég fletti auglýsingabæklingi frá hátíðinni í morgun sá ég örfáar tengingar við málstaðinn.“

Andrea telur að hátíðin sé komin útfyrir sinn upphaflega tilgang. En tekur þó skýrt fram að hún sé ekki að gagnrýna kaupmenn, heldur þátttöku bæjarins í hátíðinni og vísar í jafnréttisstefnu Akureyrarbæjar þar sem segir:

„Bæjarstjórn hefur samþykkt að í jafnréttisstefnunni verði sérstaklega lögð áhersla á meginreglurnar um afnám staðalímynda og samþættingu kynjasjónarmiða (kynjasamþættingu).“

Andrea segir: „Ég get ekki gagnrýnt kaupmennina, þó ég geti verið ósammála aðferðum sem þeir beita. En ég set spurningamerki við þátttöku bæjarins í málinu.“

Logi Einarsson er formaður stjórnar Akureyrarstofu.
Í hlutverki frænkunnar

Logi Már Einarsson er bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar á Akureyri og er formaður stjórnar Akureyrarstofu. Hann hafði heyrt af gagnrýni Andreu þegar blaðamaður hafði samband við hann. „Ég var einmitt að skoða nákvæmlega hver aðkoma bæjarins hefði verið að hátíðinni í gegnum tíðina,“ segir hann og heldur áfram:

„Það má segja að Akureyrarbær sé í hlutverki frænkunnar. Við stöndum ekki fyrir þessu sjálf, en Akureyrabær hefur komið að ótal viðburðum með aðstoð, ráðgjöf og lítilsháttar umsýslu.“

Logi segir að bæjaryfirvöld hafi ekki lagt mikla fjármuni í hátíðina. „Við lögðum að ég held hundrað þúsund krónur í hátíðina í fyrra og höfum ekki lagt neina peninga í hátíðina í ár, eftir því sem ég best veit.“

Hann segir að bæjaryfirvöld muni skoða gagnrýni Andreu. „Allt orkar tvímælis og við munum skoða þetta. Á flestum málum eru sjónarhorn sem má ræða. Við munum fara yfir þetta. En ég er ekki þar með að taka einhverju afstöðu gegn kaupmönnum,“ útskýrir formaður stjórnar Akureyrarstofu.

Vilborg Jóhannsdóttir stendur að baki hátíðinni og hengir upp hundruði bleikra slaufa árlega.
Bara falleg hugsun sem við erum að leggja til

Vilborg Jóhannsdóttir er önnur þeirra sem stendur að baki hátíðinni. Hún segir þá sem komi að hátíðinni alls ekki vera að nýta sér gott málefni bleiks októbermánaðar í annarlegum tilgangi. Hún bendir á að í fyrra hafi 900 þúsund krónur safnast á Dömulegum dekurdögum sem runnu óskipt til Krabbameinsfélags Akureyrar.

„Þessi viðburður er viðleitni til að færa gleði og líf í samfélagið á annars mjög daufum tíma, þegar veturinn er að færast yfir. Við byrjuðum með hátíðina 2008 til þess að kynna verslun og þjónustu. Október hefur gjarnan verið talinn vinkonumánuður, því þá eru allir búnir í slátrinu og ekki byrjaðir í jólabakstrinum. Við ákváðum að nota bleikan því hann er litur mánaðarins,“ segir Vilborg og segir að samhliða hátíðinni sé athygli vakin á þessum mikilvæga málsstað.

„Við notum þennan vettvang til að kynna brjóstaskoðun. Við höfum fengið aðila frá krabbameinsfélaginu til að kynna þetta og safnað fjármunum sem við vitum að hafa skipt máli. Við byrjuðum til að mynda að safna fyrir þremur mánuðum,“ segir hún og rifjar upp þær 900 þúsund krónur sem söfnuðust í fyrra, áður en hún heldur áfram:

„Fyrirtæki sem taka þátt í hátíðinni borga þátttökugjald sem rennur í markaðssetningu á hátíðinni. Afgangurinn rennur til Krabbameinsfélagsins.“ Vilborgu er greinilega umhugað um starfsemi félagsins og það skipta hana og Ingu Vestmann, sem stendur að baki Dömulegra dekurdaga með henni, miklu máli.

Ingva Vestmann er annar megin skipuleggjanda hátíðarinnar, ásamt Vilborgu.
Maður verður að gefa, en ekki bara þiggja

Vilborg segir það skipta sig miklu máli að gefa með sér. „Það skiptir máli að gefa, ekki bara þiggja. Inntakið okkar er „Pay it forward“ og vísar þar til samnefndar kvikmyndar með boðskapnum að gefa af sér án þess að fá endilega umbun fyrir.

Þegar Vilborg er spurð út í nákvæm atriði hátíðarinnar, eins og áherslu á snyrtivörur og útlitstengdar vörur segist hún ekki geta stýrt því hvað aðrir kaupmenn leggja til sem skemmtiatriði og gjafir. „Ég hef sjálf fengið Siggu Kling, Begga og Pacas og verð nú með Heiðar Snyrti hjá mér.“ Hún gefur lítið fyrir að hátíðin snúist um að gera konur neysludrifnar með útslitstengdar vörur í huga.

Vilborg segir að hátíðin hafi gengið vel, síðan hún var fyrst haldin árið 2008. „Kaupmenn minna stoltir á sín fyrirtæki. Við bjóðum fólk velkomið; Akureyringa og aðra gesti. Kaupmenn kaupa þjónustu skemmtikrafta og vilja gleðja fólk. Það er enginn skuldbundinn að versla. Hér er frítt inn og allir velkomnir. Við reynum að halda gleðinni uppi, en reynum jafnfram að sinna þessu málefni, að minna konur á brjóstaskoðun.“

Eiríkur Björn Björgvinsson er bæjarstjóri á Akureyri.
Virðist eitthvað vera að fara úr böndunum

Eiríkur Björn Björgvinsson er bæjarstjóri á Akureyri. Hann segir mikilvægt að fara varlega þegar svona hátíðir séu haldnar til að vekja athygli á mikilvægum málefnum eins og krabbameini og mikilvægi þess að konur fari í skoðun.

„Þetta er alltaf viðkvæmt. Ég held að menn þurfi að fara svolítið varlega þegar menn eru að vekja athygli á svona málum. Menn nýta sér það með mismunandi hætti. Þegar þetta fór af stað þá voru konur í verslun á Akureyri sem voru að vekja athygli á þessu. En eins og þetta lítur út í dag virðist þetta eitthvað vera að fara úr böndunum.“

Hann segir að upphaflega hafi aðkoma Akureyrarbæjar verið að styrkja konur í atvinnurekstri og minna um leið á þetta mikilvæga málefni. Hann segir að svo virðist sem einhverjir séu jafnvel að nýta sér þetta góða málefni „og eitthvað farnir að útvíkka þetta,“ bætir bæjarstjórinn við.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×