Erlent

Ósammála um hlutverk Kushner

Samúel Karl Ólason skrifar
Donald Trump og Jared Kushner.
Donald Trump og Jared Kushner. Vísir/GEttty
Forsvarsmenn rússnesks ríkisbanka sem er innifalinn í viðskiptaþvingunum gegn Rússlandi, funduðu með tengdasyni og ráðgjafa Donald Trump í desember. Jared Kushner fundaði einnig með sendiherra Rússlands í sama mánuði. Bankinn og Hvíta húsið eru ósammála um hvers vegna Kushner var á fundinum. 

Kusnher, sem er giftur Ivönku Trump, hefur samþykkt að bera vitni fyrir rannsóknarnefnd öldungadeildar Bandaríkjaþings, sem rannsakar nú tengsl og mögulegt samráð framboðs Donald Trump með yfirvöldum í Rússlandi.

Ríkisbankinn Vnesheconombank ,segir að forsvarsmenn hans hafi fundað með fulltrúum fjármálamarkaða í Evrópu, Asíu og Ameríku í fyrra og að það hafi verið liður í undirbúningi fyrir nýja viðskipaáætlun, samkvæmt frétt Reuters. Fundað hafi verið með Kushner þar sem hann er yfirmaður Kushner Companiew, fjölskyldufyrirtækisins.

Ekki sammála um á hvers vegum hann sótti fundinn

CNN segir hins vegar að Sean Spicer, fjölmiðlafulltrúi Hvíta hússins, hafi sagt Kushner hafa farið á fundinn sem fulltrúi Trump. Þá segir í frétt CNN að fundurinn hafi verið á milli Kushner og Sergey Gorkov, formanns bankans, sem var skipaður í stöðu sína af Vladimir Putin, forseta Rússlands.

Sérfræðingar sem CNN ræddi við segja þó ekkert óeðlilegt við það að forsvarsmenn banka sem séu undir þvingunum ræði við Bandaríska embættismenn.

Þvingunum hefur verið beitt gegn bankanum vegna innlimunar Rússa á Krímskaga og aðgerða þeirra í austurhluta Úkraínu.

Alríkislögregla Bandaríkjanna, FBI, og tvær þingnefndir rannsaka Trump og framboð hans vegna meints samráð við yfirvöld í Rússlandi, sem reyndu að hafa áhrif á forsetakosningarnar í Bandaríkjunum, Trump í vil.

Margir til rannsóknar

Margir af starfsmönnum Trump og framboðs hans eru til skoðunar vegna meintra tengsla við Rússa og þurfti Michael Flynn, fyrrverandi þjóðaröryggisráðgjafi Trump, þurfti að segja af sér eftir að hafa logið til um fundi sína með sendiherra Rússlands í Bandaríkjunum.

Trump tísti í nótt um málið og velti vöngum yfir því af hverju nefnd fulltrúadeildar Bandaríkjaþings um njósnamál, sem er ekki sama nefnd og Kushner mun fara fyrir, væri ekki að rannsaka Hillary Clinton og Rússland og sagði fregnir um meint tengsl hans og Rússa vera gabb.

Meðal annars nefndi hann að Clinton hefði selt úraníum til Rússlands, eins og hann hefur margsinnis gert, en það er ekki rétt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×