Innlent

Öryrkjum fjölgar í kreppunni

Öryrkjum hefur farið fjölgandi í kreppunni og finna starfsmenn Tryggingastofnunar ríkisins greinilega fyrir auknu álagi. Allt er reynt til að koma í veg fyrir að fólk festist í gildru varanlegrar örorku, segir forstjóri stofnunarinnar. Kenningar fræðimanna, spár og reynsla annarra þjóða sýna að öryrkjum fjölgar þegar harðnar á dalnum og atvinnuleysti eykst.

„Við sjáum merki þess nú þegar að það stefni í þá átt," segir Sigríður Lillý Baldursdóttir, forstjóri Tryggingastofnunar.

Tryggingastofnun ríkisins gerir mánaðarlegar mælingar á fjölda einstaklinga með örorkumat, en nú hefur orðið sýnleg breyting. Fjölgun sást fyrst í nóvember og svo aftur nú í febrúar.

„Við erum að greina þessi gögn núna og bera saman við atvinnuleysistölur til að reyna að sjá hvað býr að baki þessu. En í rauninni kemur þetta ekki á óvart," segir Sigríður Lillý.

Mikil fylgni er milli atvinnuleysis og fjölgunar öryrkja og eru einkum tvær skýringar á því. Í fyrsta lagi missa þeir vinnuna fyrr en aðrir sem standa höllum fæti á vinnumarkaði þegar niðursveifla verður í efnahagslífinu.

„Og svo líka hitt að atvinnuleysi getur leitt til örorku. Atvinnumissir er mikið sjokk fyrir fólk og ýmislegt sem fylgir atvinnuleysi og standa utan við vinnumarkaðinn geta leitt til ástands, veikinda, sem að endingu leiðir til örorku," segir Sigríður Lillý.

Mikil hætta er á að fólk festist í gildru varanlegrar örorku og komist ekki aftur á vinnumarkað þegar aðstæður batna. Til að koma í veg fyrir það er ráðuneyti félags- og tryggingamála að skoða hvernig unnt er að auka virkni þess hóps sem nú er að koma nýr inn til Tryggingastofnunar, enda er málið talið grafalvarlegt. „Já, mjög alvarlegt og ef við lítum til reynslu annarra er það eitthvað sem við viljum ekki að gerist hér," segir Sigríður Lillý.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×