Skoðun

Öryggismál - pólitík á Íslandi

Valgarður Egilsson skrifar

Maður skilur stundum ekki pólitíkina á Íslandi.

Utanríkismál hafa löngum verið deiluefni hjá okkur Íslendingum, einkum vera bandaríska hersins. Þróun mála síðustu ár kallar á nýja pólitík. Með atburðum ellefta september sést að við sem búum hér á ey mitt í Atlantshafi þurfum að velta fyrir okkur hvað gæti gerst. Flugumferð til umheimsins gæti teppst um lengri tíma, þegar næst verða framin hryðjuverk, jafnvel margar vikur. Engin ráð virðast enn fundin til að hindra hryðjuverk. Eldgos geta stöðvað flugumferð langtímum saman.

Þá væri ívið betra að treysta á skipasiglingu milli landa. En nú kemur í ljós að Íslendingar eiga ekki lengur farþegaskip sem sigli milli landa. Og vöruflutningaskip eigum við reyndar, mörg skráð í öðrum löndum.

Við vitum ekki hvers konar stríð verður háð næst. Sýklahernaður og kemískur hernaður verður einhvern tíma prófaður nánar. Þegar stórfelld hryðjuverk fara af stað næst - og samgöngur til annarra landa teppast - þá erum við hér umkomulaus og illa stödd.

Það eru ekki til teljandi birgðir af svosem neinu hérlendis. Refurinn kann að safna matarbirgðum fyrir sig. Og hrafninn fyrir sig. En ekki við Íslendingar.

Við þyrftum að eiga nokkrar birgðir lífsnauðsynja í landinu. Mat, lyf, varahluti, eldsneyti, svo eitthvað sé nefnt.

Við höfum stutt viðskiptabann á hin og þessi ríki svo við kunnum þetta sjálfsagt.

Á Íslandi ætti matvælaframleiðsla að vera fyrsta hlutverk. Landbúnað og sjósókn verður að tryggja. Skip þurfa eldsneyti. Bílar og dráttarvélar líka. Og varahluti. Það þurfa orkuver líka. Nokkuð fleira fyrir yður?



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Sjá meira


×